Fann fimm laufa smára!
Sigurður Grétar Sigurðsson úr Vogunum ætti að vera ansi heppinn næstu daga því hann fann fimm laufa smára. Það er fátítt að menn finni fjögurra laufa smára en Sigurður hefur fundið 20 slíka auk þess að finna einn fimm laufa. Þessa smára hefur hann fundið í garðinum við Aragerði 12 í Vogunum en að sögn húsráðenda þar hefur fjölskyldufólk fundið mikið af fjögurra laufa smárum í garðinum.
Sigurður var ekki búinn að ákveða hvers hann ætlaði að óska sér í kjölfar fundarins en hann ætlar að þurrka smárann upp og setja hann í ramma til eignar. Sparisjóðurinn var með leik fyrir tveimur árum þar sem landmenn voru hvattir til að finna fjögurra laufa smára. Það er spurning hvort að Sigurður fái fundarlaun frá Sparisjóðinum fyrir að finna fimm laufa smára, því eins og flestir vita þá er einkennismerki Sparisjóðsins, fjögurra laufa smári.
VF-MYNDIR/JJK: Sigurður Grétar Sigurðursson (fyrir miðju) er hér ásamt vinum sínum, Leó Smára og Aroni Inga.