Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fall sparisjóðsins sögulegt á heimsmælikvarða
Þriðjudagur 22. mars 2011 kl. 07:28

Fall sparisjóðsins sögulegt á heimsmælikvarða

Fall Sparisjóðsins í Keflavík, rannsókn á því hvert fjármunir sparisjóðsins hafi farið og málefni Helguvíkur voru meðal fjölmargra mála sem báru á góma á opnum fundi með Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Þangað var ráðherra mættur til að kynna nýja efnahagsáætlun Íslands og þau atriði sem helst eru á döfinni í efnahagsmálum á næstu misserum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í kjölfar framsögu Árna Páls var opnað fyrir almennar umræður sem voru skorinortar og spurðu fundarmenn fjölmargra spurninga sem brenna á þeim. Fjölmargar spurningar sem tengjast Suðurnesjum voru bornar upp og margar þeirra snertu fall Sparisjóðsins í Keflavík og möguleika til atvinnuuppbyggingar.


Árni Páll svaraði m.a. spurningum varðandi endurreisn SpKef Sparisjóðs, sem var blásin af. Sagði ráðherra að þegar farið var að skoða gögn tengd sjóðnum hafi komið í ljós að ógjörningur hefði orðið að endurreisa sjóðinn. Ríkisstjórnin hafi ætlað 20 milljarða til að endurreisa allt sparisjóðakerfið í landinu en sú fjárhæð hefði öll farið í SpKef Sparisjóð og þá hefðu menn staðið uppi með stofnun sem hefði ekki verið burðug eða til neins fyrir samfélagið. Ráðherra talaði einnig um það að athygli hafi vakið hversu lítið hafi fengist upp í kröfur og að fall Sparisjóðsins í Keflavík væri í raun sögulegt á heimsmælikvarða fyrir það hversu lítið fengist upp í kröfur. Nú liggur fyrir alþingi að farið verið í rannsókn á m.a. falli Sparisjóðsins í Keflavík og hverjir séu ábyrgir fyrir því.


Ráðherra leggur áherslu á að átak verði gert í menntun á Suðurnesjum, m.a. til að vinna gegn atvinnuleysi á svæðinu og auka samkeppnishæfi þess um menntað starfsfólk þegar frekari skriður kemst á atvinnuuppbyggingu.


Víkurfréttir áttu sjónvarpsviðtal við Árna Pál eftir fundinn í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Það er væntanlegt hér í Sjónvarp Víkurfrétta.




Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson