Fagnar áformum um fjölgun atvinnuleyfa til leiguaksturs
Bæjarráð Reykjanesbæjar fagnar áformum um fjölgun atvinnuleyfa til leiguaksturs en bæjarfélaginu hefur borist erindi Samgöngustofu þar sem óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar vegna fjölgunar á atvinnuleyfum til leiguaksturs á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.
Samgöngustofu hefur borist erindi frá Innviðaráðuneytinu þar sem óskað er umsagnar og eftir atvikum tillagna frá Samgöngustofu um hvort ástæða sé að fjölga atvinnuleyfum til aksturs leigubifreiða um allt að 200 leyfi á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.
Samkvæmt lögum um leigubifreiðar, nr. 134/2001, setur ráðherra í reglugerð, að fengnum tillögum Samgöngustofu, nánari reglur um fjölda leigubifreiða á ákveðnum svæðum að fenginni umsögn viðkomandi sveitarstjórna. Núverandi hámarksfjöldi fyrir höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin eru 580 atvinnuleyfi, sbr. reglugerð um leigubifreiðar.