Fagna áhuga Samherja á Helguvík
„Miðflokkurinn fagnar áhuga Samherja á atvinnuuppbyggingu í Helguvík og vonar að áform fyrirtækisins um laxeldi á landi verði að veruleika. Miðflokkurinn leggur áherslu á að bæjarstjórn eigi gott samstarf við fyrirtækið í þessum efnum og greiði götu þess við verkefnið eins og kostur er.“ Þetta segir í bókun sem Margrét Þórarinsdóttir frá Miðflokki lagði fram á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, þau Margrét Sanders, Baldur Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir, bókuðu einnig um málið. Þar segir:
„Mikið atvinnuleysi er á Suðurnesjum og fjölbreytileiki í atvinnulífinu ekki mikill. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að Samherji hafi sýnt áhuga á atvinnuuppbyggingu í Helguvík. Atvinnumál eru brýnustu verkefni sveitarfélagsins núna og því verða bæjaryfirvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess treysta stoðir atvinnuuppbyggingar á svæðinu.“