Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fagna 40 ára afmæli Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Ein af hinum alræmdu busavígslum við FS á árum áður.
Föstudagur 16. september 2016 kl. 06:00

Fagna 40 ára afmæli Fjölbrautaskóla Suðurnesja

- Við stofnun voru nemendur um 250 en eru nú vel yfir 1000

Fjölbrautaskóli Suðurnesja fagnar fjörutíu ára afmæli sínu um þessar mundir en skólinn var fyrst settur 11. september 1976. Þegar hefur verið haldin veisla í skólanum fyrir nemendur og kennara. Þann 24. september næstkomandi verður svo opið hús í skólanum. Á dagskránni þann dag eru tónleikar þar sem fyrrum nemendur skólans koma fram. Að sögn Kristjáns Ásmundssonar, skólameistara skólans, var úr vöndu að ráða við skipulagningu dagskrár enda margt hæfileikaríkt tónlistarfólk sem stundað hefur nám við skólann.

Skólinn hefur breyst mikið á þeim fjörutíu árum sem liðin eru frá stofnun hans. Hann varð til við samruna Iðnskóla Suðurnesja (sem áður hét Iðnskóli Keflavíkur), Framhaldsdeildar Gagnfræðaskólans í Keflavík og Öldungadeildar Gagnfræðaskólans í Keflavík. Til að mynda var húsnæðið um þúsund fermetrar í byrjun en er nú um 9000 fermetrar. Í þá daga var kennt á nokkrum stöðum í Keflavík, til dæmis í Holtaskóla, í safnaðarheimili Aðventista og víðar. Í upphafi voru nemendur skólans um 250 en eru nú rúmlega þúsund. Þá eru ótaldir um 130 nemendur í 10. bekkjum grunnskóla á Suðurnesjum sem taka staka áfanga á framhaldsskólastigi og 14 nemendur í fjarnámi í netagerð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aukið námsframboð með árunum
Með árunum hefur framboð á námsleiðum verið aukið og geta nemendur FS nú valið á milli rúmlega fjörutíu brauta. Í boði er bæði hefðbundið nám til stúdentsprófs og fjölbreytt starfs- og verknám. Fjölgreinabraut er ein þeirra brauta sem í boði eru til stúdentsprófs og á henni taka nemendur hefðbundin kjarnafög sem eru einnig á hinum brautunum en geta svo valið sér fög tengt því sem þeir hyggjast læra í framtíðinni. Kristján tekur sem dæmi að nemandi sem ætli í háskólanám í arkitektúr geti lagt sérstaka áherslu á smíðar og stærðfræði og þannig undirbúið sig sem best. Við starfsbraut stunda um 50 nemendur nám en hún er ætluð nemendum sem þurfa aukna aðstoð við námið og þar er reynt að mæta námslegum þörfum hvers og eins.

Frá útskrift á haustönn 2014.

Langflestir nemendur FS koma af Suðurnesjum, eða um 95 prósent. Kristján segir alltaf hluta nemenda velja sér að fara annað til náms en að þeim hafi fækkað. „Bæði fylgir því kostnaður auk þess sem tími fer í ferðir til Reykjavíkur, búi nemendur hér á Suðurnesjum. Það gerist á hverju hausti að nemendur sem höfðu ætlað sér í nám annað hætta við á síðustu stundu og sækja um hér í FS. Þá er ekki víst að þau geti fengið alla þá áfanga sem þau vilja.“ Þá bendir Kristján á að einhverjir sæki annað í skóla því þar sé bekkjarkerfi. „Svo eru önnur sem hafa orðið fyrir einelti í grunnskóla og vilja þess vegna sækja skóla á öðru svæði. Ástæður þess að sækja annað í nám geta verið fjölmargar.“ Kristján segir kennsluna í FS  góða og að nemendur þurfi ekki þess vegna að sækja annað. Nemendur skólans hafa spjarað sig vel hvort heldur er á vinnumarkaði eða í háskólanámi. „Þetta fer allt eftir því hversu tilbúin og viljug þau eru að læra. Megin reglan er sú að ef nemendur stunda námið vel þá gengur þeim vel. Það eru alltaf einhverjir sem vilja sigla lygnan sjó í gegnum námið og leggja lítið á sig en það er sama sagan alls staðar - það verður að sinna náminu vel til að ljúka því.“

Barátta gegn brotthvarfi eilífðar verkefni
Brotthvarf úr framhaldsskóla er eilífðar verkefni, að sögn Kristjáns. Nýlega var átaki til að sporna við því ýtt úr vör við FS. Tveir sálfræðingar eru þrjá daga í viku í skólanum auk þess sem starfsmaður var ráðinn til að fylgjast með þeim nemendum sem eru í hvað mestri hættu á að hverfa frá námi. Hann segir mikið framboð af atvinnu á svæðinu toga í nemendur. „Við hvetjum þau alltaf til að ljúka námi því það er erfitt að snúa til baka á fullorðinsaldri enda er fólk þá yfirleitt komið með ýmsar skuldbindingar og hefur stofnað fjölskyldu. Því segjum við að yfirleitt sé best að nýta tímann á meðan ungt fólk getur búið í foreldrahúsum. Þetta verður ekkert léttara síðar.“ Nú er búið að stytta nám til stúdentsprófs í þrjú ár og segir Kristján það vonandi hjálpa gegn skólaleiða því þá sé ekki svo mikið eftir þegar búið er að ljúka tveimur árum en skólaleiðinn mun vera algengastur á þeim tímapunkti.

Þessi mynd var tekin á nemendum í hárgreiðslu um árið.