Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fagháskólanám í leikskólafræðum kennt í annað sinn við Keili
Sunnudagur 30. maí 2021 kl. 08:41

Fagháskólanám í leikskólafræðum kennt í annað sinn við Keili

Keilir og Háskóli Íslands bjóða nú í annað sinn upp á fagháskólanám í leikskólafræðum fyrir starfsfólk leikskóla á Suðurnesjum. Um er að ræða starfstengt og hagnýtt nám á háskólastigi. Námið er sett upp sem 60 ECTS einingar og skilgreint sem nám með vinnu og er áætlað að það taki tvö ár. Stefnt er að því að námið hefjist í byrjun september næstkomandi og fara umsóknir fram á vef Háskóla Íslands. Umsóknarfrestur er til 12. júní.

Hagnýtt, atvinnutengt nám

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um er að ræða hagnýtt, atvinnutengt nám á háskólastigi sem lýkur með veitingu sérstaks prófskírteinis. Námið veitir haldgóða þekkingu á starfi með börnum í leikskólum og hentar einkum þeim sem hafa starfað sem leiðbeinendur í leikskólum og hyggjast bæta við hæfni sína og/eða hefja leikskólakennaranám. Nemendur munu fá námseiningar metnar sæki þeir um áframhaldandi nám í leikskólafræðum við Háskóla Íslands.

Fyrra árið fer námið fram í Keili og verður skipulagt sem sveigjanlegt nám með starfi. Kennarar í leikskólakennarafræðum heimsækja nemendur í heimabyggð, í húsnæði Keilis þar sem þunginn af náminu fer fram. Nemendur fara í heimsóknir á vettvang og heimsækja einnig Menntavísindasvið Háskóla Íslands í Stakkahlíð, sem ber faglega ábyrgð á náminu.

Seinna árið verða nemendur hluti af leikskólakennaranemahópnum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, kennslan fer þá fram í húsnæði Menntvísindasviðs en einnig geta nemendur stundað námið í  fjarfundi frá Keili.

Aukinn skilningur á starfinu

Guðríður Sæmundsdóttir, nemandi  á fyrsta ári í fagháskólanámi í leikskólafræðum segist lengi hafa velt háskólanámi á sviðinu fyrir sér en alltaf hafa miklað það fyrir sér. Hún hafi að endingu látið slag standa og sér ekki eftir þeirra ákvörðun. Hún segir námið hafa nýst sér vel í starfi „Maður horfir allt öðruvísi á starfið, ég er stöðugt að ígrunda og reyna að gera betur. Skilningurinn á starfinu og hvað felst í því að vera leikskólakennari hefur aukist.“

Guðríður segir námsálagið temmilegt, ekki of mikið eða lítið með vinnu og rekstri á fimm manna heimili „Það hefur gengið mjög vel og eiginlega betur en ég þorði að vona. Fjölskyldan hefur stutt vel við mig og allir hjálpast að þegar það hefur verið álag hjá mér í náminu. Leikskólastjórar og samstarfskonur hafa einnig sýnt stuðning og það hefur mikið að segja.“ Þá segir hún skólann halda vel um nemendur „Það er stanslaust verið að huga að því hvernig við höfum það og hvort við séum nokkuð að bugast. Námsráðgjafarnir eru frábærir og alltaf tilbúnir að peppa okkur ef þess þarf.“

Frábært fyrir þau sem hafa lengi verið frá námi

Guðný Margrét Jónsdóttir hóf nám í leikskólafræðum eftir ábendingu frá leikskólastjóranum við leikskólann sem hún hefur starfað hjá í þrjú ár. Segir hún námið henta vel með fullri vinnu og ung börn á heimilinu. Guðný segir leikskólastjóra og samstarfsfólk hafa sýnt mikinn stuðning og viljað fylgjast með náminu.

Guðný segist hlakka til að halda áfram að bæta við þekkingu sína á starfinu með hverri önninni. „Þetta nám er frábært fyrir alla þá sem hafa ekki verið í skóla lengi og þora ekki að byrja í námi eftir langa pásu. Það er vel haldið utan um fólkið í náminu og auðvelt að fá skjót svör frá kennurum og námsráðgjöfum. Ég hvet alla þá sem hafa áhuga á að vinna með börnum að sækja um í Fagháskólanám í leikskólafræðum.