Fagfólk sameinast gegn brotthvarfi
Evrópuverkefnið CAPWIN hjá MSS fer vel af stað.
„Verkefnið fengið mjög góðar viðtökur og er nokkuð ljóst að samstaða er innan fagaðila á svæðinu um að sporna eins og hægt er gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum. Með þátttöku í verkefninu fá fagaðilar í hendur efni sem nota má til þess að innleiða aðferðina í þeirra vinnuumhverfi,“ segir Særún Rósa Ástþórsdóttur, verkefnastjóri hjá MSS, en Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er aðili að Evrópuverkefninu CAPWIN. Verkefnið er unnið í samstarfi 7 landa og snýr að innleiðingu aðferða sem draga eiga úr brotthvarfi. Aðferðunum er ætlað að styrkja fagfólk í vinnu sinni með brotthvarfsnemendum og gefa nemendum færi á að virkja styrkleika sína um leið og þeir skoða eigin ákvarðanatöku.
Fjölbreyttur hópur fagfólks
Nýlega hófst svokallað reynslutímabil eða ,,testing phase“ þar sem aðferðir og verkfæri gegn brotthvarfi eru kynntar fagaðilum á svæðinu. Tímabilið nær yfir 6 vikur og hlýtur fagfólk þjálfun í aðferð Robert Michit sem þróuð hefur verið í franska skólanum Arc en Ciel. Hópurinn sem tekur þátt í reynslutímabilinu samanstendur af náms- og starfsráðgjöfum frá MSS, grunnskólum, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hjá Keili, félagsráðgjöfum hjá félagsþjónustu sveitarfélaga auk félagsráðgjafa hjá Samvinnu, starfsendurhæfingu innan MSS.
Markmið MSS með verkefninu er að koma á samstarfi við aðila sem koma að brotthvarfi á Suðurnesjum. Athygli fagaðila innan skólasamfélagsins hefur undanfarið beinst að brotthvarfsvanda og ráðist hefur verið í margvíslegar aðgerðir til þess að draga úr brotthvarfi og ekki síst að fyrirbyggja vandann. Þar vill MSS leggja lóð sín á vogarskálarnar sem fræðsluaðili á Suðurnesjum og taka þannig þátt í að efla menntunarstig, árangur og ekki síst vellíðan einstaklinga sem hafa átt í erfiðleikum með nám og námsástundun.