Færri nemendur á næstu önn vegna niðurskurðar
Verið er að vinna í innritun fyrir næstu önn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en færri munu komast að en vilja. Gert er ráð fyrir um 1000 nemendum í dagskóla á næstu önn, en tekið verður inn af biðlista í byrjun janúar. „Því miður þá komast færri að en vilja en við erum að reyna að gera okkar til að sem flestir geti fengið skólavist. Því skiptir höfuðmáli fyrir nemendur nú að mæta vel og sinna náminu til að eiga ekki á hættu að detta út“ segir Kristján Ásmundsson, skólameistari.
Miðað við fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár er Fjölbrautaskólanum gert að draga saman um 15,4 milljónir frá því sem var á árinu 2009, þrátt fyrir fjölgun nemenda. „Tillögur ráðuneytisins hljóða meðal annars upp á að framlag til kvöldskóla skuli skert um helming og þjónustu við grunnskólanemendur skuli hætt, þ.e. að hætt verði að taka inn nemendur í 10. bekk í áfanga hjá okkur eins og við höfum gert í um tíu ár“ segir Kristján og bætir við að dregið hafi verið úr rekstrarkostnaði á þessari önn til að mæta þessu og hafi þar allir lagst á eitt og það gengið vel. „Við ætlum okkur að halda áfram að bjóða Suðurnesjamönnum upp á fjölbreytt nám bæði í dagskóla og kvöldskóla.“
Á morgun, laugardaginn 19. desember, verða brautskráðir 52 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hefst útskriftin kl. 14.