Færri íslenskir fjárfestar í Thorsil en áætlað var
Fjárfesting í kísilverksmiðju Thorsil í Helguvík var kynnt fyrir stóru lífeyrissjóðunum hér á landi og hefur aðeins einn þeirra, Almenni lífeyrissjóðurinn, tilkynnt um þátttöku. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins mun ekki fjárfesta í Thorsil. Frá þessu er greint í Fréttatímanum. Framkvæmdastjóri Thorsil, Hákon Björnsson, segir í samtali við Fréttatímann að það séu vonbrigði að fleiri lífeyrissjóðir hafi ekki viljað fjárfesta í kísilverksmiðjunni. Markmiðið hafi verið að reyna að hafa sem flesta íslenska fjárfesta og sjóði. Nú blasi hins vegar við að hlutur erlendra aðila í verkefninu verði meiri.
Fjármögnun á kísilverksmiðjunni hefur dregist töluvert en í viðtali við Fréttatímann sagði Hákon að hún væri langt komin.