Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 8. febrúar 2002 kl. 13:33

Færri farþegar og minni frakt

Nær þriðjungs fækkun var, í desember, á farþegum Flugleiða, sem leggja leið sína yfir Atlantshafið með viðkomu á Íslandi. Farþegum í millilandaflugi Flugleiða fækkaði, í desember, alls um nær 20 prósent miðað við desember árið á undan. Á árinu 2001 fækkaði farþegum um 5,1 % í millilandaflugi Flugleiða. Þeir voru 1,358,082, en 1,431,789 árið 2000. Farþegum á leið til og frá Íslandi fækkaði um 3,1% árið 2001 og var 7,4% fækkun farþega á leið um Ísland yfir Norður-Atlantshafið í samanburði við árið 2000. Farþegum á almennu farrými fækkaði um 4,8%, en á viðskiptafarrými um 9,7%.

Sætanýting versnaði um 1 prósentustig, var 71,4% á árinu 2001, en 72,4% árið 2000. Sætaframboð var 4,2 prósentustigum minna á árinu 2001 í samanburði við árið á undan og salan minnkaði um 5,6%.

Á árinu 2001 varð hinsvegar 15,9% samdráttur í farþegafjölda hjá Flugfélagi Íslands í samanburði við árið á undan, og fraktflutningar hjá Flugleiðum-Frakt voru 6,2 prósentustigum minni á síðasta ári en árið 2000.


Í desember minnkaði sætaframboð Flugleiða um 21,9% og salan um 22,5%, sem leiddi til þess að sætanýting var í mánuðinum 0,5 prósentustigum lakari en í desember árið 2000. Hún var 62,6% í desember 2001 , en 63,1% árið á undan.

Farþegum í innanlandsflugi Flugfélags Íslands, dótturfyrirtækis Flugleiða, fækkaði í desembermánuði um 22,8%, úr 22,606 farþegum í desember árið 2000 í 17,448 í sama mánuði 2001. Þá fækkaði fluttum tonnum hjá Flugleiðum-Frakt, dótturfyrirtæki Flugleiða, um 19,1%.

Frétt af Vísir.is.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024