Færður í fangageymslur vegna æsings og ölvunar
Lögregla var kölluð að skemmtistað einum í Keflavík á aðfararnótt laugardags en þar áttu dyraverðir í vandræðum með einn samkvæmisgestinn. Lögreglumenn urðu að handtaka gestinn vegna æsings og ölvunar. Sá svaf úr sér í fangaklefa lögreglustöðvarinnar.
Sömu nótt voru tveir teknir fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut og einn vegna gruns um ölvun við akstur. Á fimmta tímanum barst lögreglu tilkynning um einkennilegt ökulag bifreiðar við Kúagerði og stöðvuðu hann skömmu seinna. Ökumaðurinn var handtekinn en var sleppt að lokinni blóðsýna og skýrslutöku.
Rólegt var á vaktinni í nótt en tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka of hratt. Annar var stöðvaður á Njarðarbraut fyrir að aka á 78km hraða þar sem leyfður hraði er 50 km. Hinn var stöðvaður á Grindavíkurvegi fyrir að aka á 117 km hraða þar sem leyfður hraði er 90 km.