Færabátar moka upp ufsanum
„Hér er hefðbundin staða og allt gengur sinn vanagang,“ segir Karl Einarsson starfsmaður Sandgerðishafnar um lífið á höfninni. Flestir þeirra báta sem hafa verið á línu í vetur eru komnir á færi en færabátarnir hafa verið að fiska mikið af ufsa, en lítið hefur verið af þorskinum. Mikil ufsagengd er í Röstinni og á Boðanum um þessar mundir og segja sjómenn sem Víkurfréttir hafa rætt við að ufsinn hafi verið fullur af síld.
Að sögn Karls eru tveir til þrír bátar á netum en aðeins tveir eru eftir á línunni. „Þeir bátar sem enn eru á netunum hafa verið að fá ágætisafla síðustu daga. Snurvoðabátarnir eru einnig að fiska ágætlega og þá aðallega þorsk,“ segir Karl.
Um sex bátar í Sandgerði eru á skötuselsveiðum.
Myndin: Frá Sandgerðishöfn.