Færa litakóða eldstöðva fyrir Reykjanes á gulan
Veðurstofa Íslands hefur sent út tilkynningu um breytingu á litakóða eldfjalls. Litakóði fyrir Reykjanes er núna gulur en það var kl.15:18 í dag sem kóðinn fór úr grænum og yfir á gulan. Eldstöðin var síðast skilgreind gul frá 16. maí til 2. júní 2022.
Nýjustu GPS gögn og InSAR mynd unnin úr gervitunglagögnum frá því síðdegis í gær sýna skýr merki um landris nærri Svartsengi. Landris virðist hafa hafist í gær, 27. október og bendir til aukins þrýstings, líklegast vegna kvikuinnskots á dýpi. Miðja landrissins er um 1,5 km norðvestan við Þorbjörn, nærri Bláa lóninu. Árin 2020 og 2022, mældist einnig landris á sama svæði. Þetta er í fimmta sinn síðan 2020 sem landris mælist þar. Fyrsta mat á hraða landrissins sem er í gangi núna er að það sé hraðara en áður. Að svo stöddu er ekki merki um að kvika færist nær yfirborði, aðstæður geta hins vegar breyst á skömmum tíma. Sprunguhreyfingar vegna gikkskjálfta nærri og austan Svartsengis gætu mögulega gert kvikunni kleift að færast grynnra í skorpunni.