Fær helmingi minna en aðrar markaðsstofur vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll
- starfsmanni sagt upp og verkefni í uppnámi
Markaðsstofa Reykjaness fær helmingi minna fjármagn frá Ferðamálastofu en aðrar markaðsstofur á Íslandi vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll. Þuríður Halldóra Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness, hefur sent öllum aðildarfélögum Markaðsstofu Reykjaness póst þar sem greint er frá stöðu fjármögnunar markaðsstofunnar.
Markaðsstofur landshlutanna eru fjármagnaðar hver af sínum landshluta í gegnum framlög frá sveitarfélögum og aðildarfélögum auk þess sem ríkið hefur í gegnum Ferðamálastofu styrkt hverja og eina um kr. 7.612.000 árlega frá árinu 2011. Fjármagnið hefur því verið óbreytt þrátt fyrir aukið álag og verkefni. Í haust 2017 samþykkti Alþingi fjárframlög til eflingar markaðsstofanna sem stoðkerfis ferðaþjónustunnar inn á sínum landshlutum m.a. til að koma til móts aukin verkefni sem hafa komið á borð þeirra á síðustu árum. Um var að ræða viðbótarfjármagn uppá samtals um kr. 91 millj. á ári næstu 3 árin sem skiptast átti niður á svæðin m.v. grunnfjármögnun, stærð svæða og verkefna.
Markaðsstofa Reykjaness situr ekki við sama borð
Í póstinum sem Þuríður ritar til aðildarfélaga Markaðsstofu Reykjaness segir að samningaviðræður hafi staðið yfir frá því í október 2017 og er staðan þannig í dag að gerðir hafa verið samningar við allar markaðsstofur landshlutanna nema Markaðsstofu Reykjaness. Ástæðan er sú að skv. Ferðamálastofu á Markaðsstofa Reykjaness ekki rétt á að fá sama grunnfjármagn og aðrar markaðstofur (kr. 10.200.000) og markaðsstofunni boðin lægri fjárhæð (kr. 5.100.000). Ágætt er að hafa til hliðsjónar að grunnfjármögnunin var 7.612.000 áður.
„Ástæður lækkunarinnar var að inn á svæði markaðsstofunnar er Keflavíkurflugvöllur og samkvæmt því eigum við auðveldara með að ná í ferðamenn inn á svæðið. Raunverulegar heimsóknartölur inn á svæðið virðist ekki skipta máli í þessu samhengi eða virðisaukning innan svæðisins. Auk þess telja þau að ferðaþjónustuaðilar á svæðinu eigi að greiða meira til markaðsstofunnar vegna þessa. Þar er þó ekki tekið tillit til breyttrar gjaldskrár markaðsstofunnar og að fyrirtæki á öðrum svæðum greiði minna,“ segir Þuríður í póstinum.
Auk grunnfjármagns átti viðbótarfjármagnið að renna að hluta til að framfylgja áfangastaðaáætlunum svæðanna sem samsvarar launum fyrir ½ eða 1 starfsmann (5.1 eða 10.2 millj. fer eftir stærð svæða) og fylgir sá hluti þessum samingum sem nú hafa verið undirritaðir. Eftir standa tæplega 50 milljónir sem settar voru í samkeppnissjóð sem markaðsstofunum er ætlað að sækja í. Sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni í ferðaþjónustu í landshlutunum. Við úthlutun á fjármagni er horft til fjölda flugtenginga og fjölda ferðamanna og skilaboðin til okkar voru þau að við myndum að öllum líkindum ekki fá úthlutað úr þessum sjóði.
„Við höfum átt samtal við ráðuneytið, Ferðamálstofu, þingmenn og fleiri en því miður er enginn vilji eða geta til að leysa úr þessu máli. Skilaboðin sem við fáum er að þetta er ákvörðun sem er búið að taka og henni verður ekki breytt. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og stjórn Markaðsstofunnar hafa bókað á sínum vettvangi að við sættum okkur ekki við þessa niðurstöðu, auk þess sem ákveðið var á stjórnarfundi Markaðsstofunnar í síðustu viku að leggja fram stjórnsýslukæru, sem verið er að vinna í og við óskað eftir fundi með ráðherra. Hann hefur ekki fundið tíma til þess,“ segir Þuríður jafnframt.
Staða verkefna
Staða Markaðsstofu Reykjaness er þannig í dag er því sú að hún hefur þurft að segja upp öðrum starfsmanni stofunnar, auk þess sem verkefni markaðsstofunnar sem komin voru vel á skrið eru í uppnámi, m.a. hefur þurft að draga úr krafti samfélagsmiðla, blaðamannaferða, vinnu við markaðsefni og fleiri verkefna.
„Málinu er hvergi nærri lokið en þetta er ömurleg staða sem svæðið er komið í og algert skilningsleysi ríkir hjá hinu opinbera gagnvart áfangastaðnum og frekari þróun hans,“ segir Þuríður Halldóra Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness í póstinum til aðildarfélaga markaðsstofunnar.