Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fær ekki greiddan ferðatíma vegna aukavakta
Mánudagur 11. október 2004 kl. 11:48

Fær ekki greiddan ferðatíma vegna aukavakta

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli og íslenska ríkið af kröfu lögreglumanns á Keflavíkurflugvelli, um að fá greiddan ferðatíma vegna aukavakta sem hann tók að sér.

Lögreglumaðurinn býr í Keflavík og vildi fá greitt fyrir 30 mínútna ferðatíma við mætingar á aukavaktir í samræmi við kjarasamning milli Landssambands lögreglumanna og ríkisins. Maðurinn hefur fengið greiddan ferðatíma þegar um vaktir samkvæmt varðskrá er að ræða, en frá þessu er greint á mbl.is.

Áður en núgildandi kjarasamningur var gerður árið 2001 fékk lögreglumaðurinn ferðatíma greiddan vegna aukavakta samkvæmt grein í þágildandi kjarasamningi, sem fjallaði um greiðslu ferðatíma vegna vinnu utan vaktskrár, en það ákvæði var fellt brott með núgildandi kjara-samningi. Lögreglumaðurinn taldi að það breytti engu þótt umrædd grein hefði verið felld brott því önnur grein í gildandi samningi, grein 5.4.4, næði yfir þetta.

Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni, að lögreglumenn hafi fengið greitt fyrir ferðir á vinnustað vegna aukavakta samkvæmt sérstökum ákvæðum í kjarasamningum, sem giltu á hverjum tíma, allt frá árinu 1973, en síðast samkvæmt grein 2.3.9 í kjarasamningi frá 30. ágúst 1997, þar til ákvæðið var fellt brott með núgildandi kjarasamningi sem hefur verið í gildi frá 1. júlí 2001.

Fyrir þann tíma hafði grein 5.4.4 verið skilin á þann hátt að greiða skyldi fyrir ferðatíma vegna vinnu samkvæmt varðskrá. Orðalag ákvæðisins eða önnur ákvæði kjarasamningsins gefi ekki tilefni til að það verði skilið á annan hátt en það hafði ávallt verið skilið frá þeim tíma þegar það tók fyrst gildi samkvæmt kjarasamningi frá árinu 1980. Ekkert liggi heldur fyrir um að leggja hafi átt aðra merkingu í grein 5.4.4 í núgildandi kjarasamningi vegna þess að ákvæði greinar 2.3.9 um ferðir vegna aukavakta var felld niður eða að fyrrnefnda greinin ætti að hafa víðtækari merkingu en áður til að unnt væri að ná fram tilgangi ákvæðisins. Hið umdeilda ákvæði beri því að skilja og túlka á sama hátt og áður var gert, þ.e. þannig að það gildi einungis um ferðatíma þegar mætt er á vaktir samkvæmt varðskrá.

Héraðsdómur féllst því ekki fallist á lögreglumaðurinn ætti þann rétt sem hann krafðist viðurkenningar á og því var ekki fallist á fjárkröfu hans í málinu, samtals tæplega 92 þúsund krónur auk dráttarvaxta.

Fleiri fréttir á mbl.is.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024