Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fær 6,5 milljónir í skaðabætur fyrir frelsissviptingu
Miðvikudagur 12. janúar 2011 kl. 15:20

Fær 6,5 milljónir í skaðabætur fyrir frelsissviptingu

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi ríkið til þess að greiða karlmanni á þrítugsaldri sex og hálfa milljón í skaðabætur fyrir að hafa fært hann á lögreglustöð og vistað í fangaklefa eftir að hann fékk flogakast undir stýri. Þessu er greint frá á visir.is.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Atvikið átti sér stað árið 2003 þegar maðurinn var 21 árs gamall. Hinn flogaveiki hafði verið að aka hluta Njarðarbrautar í Reykjanesbæ þegar hann fékk skyndilega flogakast. Maðurinn ók út af í kjölfarið og missti meðvitund.

Trylltist þegar hann vaknaði
Lögreglan og sjúkrabíll komu á vettvang og var þeim kunnugt um ástand mannsins samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms en maðurinn var illa áttaður þegar hann rankaði við sér.

Samkvæmt málsvörn lögreglunnar þá var maðurinn illur og ofbeldisfullur áður en lögreglan handtók hann. Maðurinn virðist hafa misst stjórn á skapi sínu sem varð til þess að lögreglan yfirbugaði hann og handjárnaði fyrir aftan bak. Honum var ekið á lögreglustöðina þar sem hann mátti dúsa í rúmlega tuttugu mínútur.

Ekki heimilt að færa á lögreglustöð
Héraðsdómur telur handtökuna löglega en aftur á móti hafi lögreglunni ekki verið heimilt að færa manninn á lögreglustöðina þar sem hann þurfti að dúsa þar til hann róaðist. Þá var enginn læknir kallaður til þrátt fyrir að maðurinn hafði lent í umferðaslysi auk þess sem hann var flogaveikur.

Fram kemur í dóminum að maðurinn hefði ekki verið losaður úr járnunum þar sem hann hafði enn verið illur eftir handtökuna. Voru handjárnin ekki fjarlægð fyrr en eftir að hann hafði örmagnast eins og segir í dóminum, það er að segja um hálftíma síðar.

Vaknaði í svitapolli
Sjálfur sagði maðurinn að hann hefði rankað við sér í svitapolli á maganum, handjárnaður fyrir aftan bak. Hann bar á sömu lund fyrir dómi, að hann hefði rankað við sér grátandi og sveittur.

Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að lögreglan hafi farið út fyrir heimildir sínar til beitingar valds og með þeirri valdbeitingu bakað manninum tjón á saknæman og ólögmætan hátt.

Með kæru stefnanda til ríkissaksóknara, dags. 27. október 2003, var farið fram á rannsókn á því, í fyrsta lagi hvort fullnægjandi handtökuheimild hafi verið fyrir hendi í umrætt sinn, í öðru lagi hvort lögregla hafi gengið lengra í beitingu valds en þörf var á og í þriðja lagi hvort brot lögreglunnar flokkist undir 132. gr. eða 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í lok kærunnar var gerður áskilnaður um að leggja fram skaðabótakröfu á síðari stigum eftir því sem málið gaf tilefni til.“ segir í skýrslu héraðsdóms.

Dómurinn var fjölskipaður og vekur athygli að einn dómaranna, læknirinn Björn Sigurðsson, skilaði inn sératkvæði. Hann taldi lögregluna ekki hafa farið út fyrir vald sitt. Hann leit svo á að maðurinn hefði ekki verið sviptur frelsinu lengur en nauðsyn bar í ljósi skapofsans.

VF-myndir: Frá vettvangi atburðarins árið 2003 og einnig áverkar eftir handjárnin.

www.visir.is