Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fækkun í verknámi áhyggjuefni
Sunnudagur 2. september 2012 kl. 04:00

Fækkun í verknámi áhyggjuefni

Með auknum vindi sem Suðurnesjabúar eru vel kunnugir kemur haustið en þá byrja líka skólarnir. Kennsla í Fjölbrautaskóla Suðurnesja hófst í síðustu viku en í dag  er hinn árlegi busadagur. Ýmsar breytingar hafa átt sér stað fyrir þetta skólaár en þau Kristján Ásmundsson og Guðlaug Pálsdóttir hafa verið ráðin skólameistari og aðstoðarskólameistari en þau höfðu þó gegnt þeim störfum í nokkur ár á meðan fyrrum skólameistari var í leyfi. Aðrar breytingar eru þær að ekki verður boðið upp á kvöldskóla á þessari haustönn og dregið hefur verið úr aðsókn í iðnnám sem Guðlaug Pálsdóttir, aðstoðarskólameistari telur mikið áhyggjuefni. Guðlaug svaraði nokkrum spurningum blaðamanns Víkurfrétta.

Í haust munu um 1120 dagskólanemendur hefja nám sem er með því mesta sem skólinn hefur verið með og rúmlega 100 grunnskólanemendur sem koma í valfög. Ekki var unnt að taka á móti öllum sem sóttu um skólavist í FS í haust en tugir manns þurftu frá að hverfa vegna fjárskorts. Að sögn Guðlaugar hefur skólinn alltaf verið mjög vel rekinn og nánast aldrei verið í mínus og því þykir skólanum leitt að geta ekki tekið á móti öllum en ekki er mögulegt að fara fram úr því fjármagni sem skólinn fær frá ríkinu.

Kynjafræði kennd næsta vor
Aðspurð um nýjungar í skólastarfinu í haust segir Guðlaug: „Við erum auðvitað alltaf með eitthvað nýtt, erum nýlega búin að stofna styttri námsbrautir eins og löggæslu- og björgunarbraut og við erum eini skólinn á landinu sem er að bjóða upp á þá námsbraut. Í vor útskrifuðum við í fyrsta skipti af þessari braut. Við erum að þróa námið áfram, þetta er tveggja ára nám. Strákar sem hafa verið á þessari braut hafa verið að fá sumarafleysingastörf hjá lögreglunni og er það mjög ánægjulegt að lögreglan kjósi að nýta sér starfskrafta þeirra. Eftir jól stefnum við á að byrja jafnvel með aðra styttri námsbraut en það er ferðaþjónustubraut. Á vorönn verður svo boðið upp á kynjafræði í fyrsta skipti í FS en nýlega réðum við unga konu til starfa sem kennir á starfsbrautinni  en er með meistaragráðu í kynjafræði en hún heitir Thelma Björk Jóhannesdóttir. Það verður fróðlegt  að sjá hvernig nemendur taka í það en jafnréttismál hafa mikið verið í umræðunni undanfarin misseri.  Það sem dettur út hjá okkur er kvöldskólinn en við höldum því þó opnu t.d. ef hópur kemur til okkar og vill taka námskeið eða við finnum fyrir auknum áhuga, þá munum við skoða það.“

Hvað gerir FS frábrugðinn öðrum skólum?
„Við erum með afbragðsgóða starfsgreinadeild. Við erum einn af stóru skólunum á landinu en þó eru afar fáir skólar sem ná t.d. að keyra áfram jafn marga stærðfræðiáfanga og við. Við erum með stútfulla og hér um bil of stóra áfanga sem eru 603 og 703, en 703 er hæsti áfanginn sem boðið er upp á. Við kennum um 12-14 stærðfræðiáfanga fyrir nemendur á stúdentsbraut, þeir gerast varla fleiri í öðrum skólum. Einnig erum við að sjá að góðir nemendur úr FS hafa verið að standa sig vel í háskólanámi. Við höfum verið að fara á kynningu hjá háskólunum og t.d. í verkfræðideild þar sem eru lögð fyrir próf í upphafi, kemur FS mjög vel út. Einnig segjum við stolt frá því að Háskólinn í Reykjavík heiðraði fjóra nemendur í útskriftinni í vor og tveir þeirra eru fyrrum FS-ingar.“

Foreldrar hæstánægðir með nýnemadag
Guðlaug segir mikla grósku í skólanum. „Nemendafélagið er að standa sig vel og í dag er mótttaka þeirra 250 nemenda sem eru að hefja nám eða svokölluð busavígsla,“ segir Guðlaug. Busavígsla hefur verið harðlega gagnrýnd undanfarið og segir Guðlaug alltaf verið að draga úr hörku busavígslunnar en nemendafélagið þarf að bera allt sem fer fram á nýnemadaginn undir skólastjórnendur. „Þetta er orðið miklu strangara en þetta var og í dag leggjum við áherslu á að nei þýðir nei. Við byrjuðum með nýnemadag fyrir einhverju síðan og hafa margir skólar tekið okkur til fyrirmyndar og gert slíkt hið sama. Þá mæta nýnemarnir hingað og eru hér í heilan dag áður en hinir nemendurnir mæta, þeir fá að borða, taka þátt í skemmtun og þurfa að leysa verkefni í skólanum og annað slíkt. Við höfum fengið ótal mörg skilaboð frá foreldrum þar sem þau lýsa ánægju sinni með þennan kynningardag fyrir nýnema því þá þarf barnið þeirra ekki að kvíða fyrir að mæta í glænýtt umhverfi með öllum eldri nemendunum.“
Guðlaug segir áhyggjuefni hversu mikið hefur dregið úr aðsókn í verknám. „Þetta er eitt sem ég hef miklar áhyggjur af. Við viljum auðvitað efla verknámið og okkur finnst þetta slæm þróun. Það getur verið erfitt í sumum deildum að koma iðnnemum á samning og því geta þau ekki klárað námið sitt. Við bjóðum upp á smíði, rafmagn, hárgreiðslu, málmsmíði og vélstjórn og í sumum greinum dregur úr aðsókn eins og smíði en málmsmíði er þó orðið vinsælla en áður. Okkur finnst minnkandi aðsókn í iðngreinar vera áhyggjuefni en við teljum að þetta tengist efnahagsástandinu hér á landi. Þetta getur orðið slæmt þar sem að það má ekki vanta iðnaðarmenn í heila kynslóð, við þurfum á iðnaðarmönnum að halda.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024