Fækkar á atvinnuleyisskránni
				
				
Nokkuð fleiri eru skráðir á atvinnuleysisskrá Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja í september ef miðað er við árið í fyrra. Í dag eru 275 aðilar skráðir atvinnulausir en voru 242 á sama tíma í fyrra. Ef litið er til ársins 2001 voru 64 einstaklingar atvinnulausir í sama mánuði. Töluvert hefur fækkað á atvinnuleysisskránni síðustu vikur að sögn Ketils G. Jósefssonar forstöðumanns Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja, en á tímabili í sumar voru rúmlega 400 manns skráðir atvinnulausir á svæðinu. „Við erum tiltölulega ánægð. Það hefur verið töluvert um auglýsingar um störf og þá sérstaklega hjá fiskvinnslunni,“ segir Ketill, en ein af skýringunum fyrir fækkun á atvinnuleysisskránni gæti verið sú að skólafólk sem skráði sig atvinnulaust hefur hafið nám og farið af skránni. Á næstunni mun Svæðisvinnumiðlun Suðurnesja bjóða upp á námskeið fyrir þá sem lengst hafa verið á atvinnuleysisskrá og verður m.a. í boði tölvunámskeið, sjálfsstyrkingarnámskeið og fjármálanámskeið.
				
	
				
					
						
					
					
						
					
				
				
				 								
			




 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				