Fæðingum fækkaði um 20% á HSS
Fæðingum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fækkaði um tuttugu prósent árið 2011 frá fyrra ári. Á fæðingardeild HSS fæddust 138 börn í fyrra en árið 2010 voru þau 172 börn. Innlögnum á sjúkrahúsið fækkaði jafnframt um tuttugu prósent milli ára, fóru úr 1.666 árið 2010 í 1.325 í fyrra. Þetta kemur fram í ársskýrslu HSS sem vitnað er til á mbl.is.
Þá var heildarfjöldi ómskoðana í fyrra 672 en 895 árið 2010 og er það fækkun um 25%. Er um að ræða ómskoðun sem öllum verðandi mæðrum er boðið upp í 20. viku og síðan aftur við 34. viku meðgöngu, en þá er stærð og vöxtur barns metinn.
En þó svo fæðingum og ómskoðunum hafi fækkað töluvert voru 1.344 komur á göngudeild sem tengd er tengd meðgöngu og barneignum, en það er 45% aukning frá árinu 2010. Þjónustuna nota barnshafandi konur sem koma í hjartsláttarrit, mat á byrjandi fæðingu, nálastungur og mæður með vandamál tengd brjóstagjöf.
Í pistli Sigríðar Snæbjörnsdóttur, forstjóra HSS, sem birtur er í ársskýrslunni segir að kreppan hafi haft áhrif á HSS eins og aðrar heilbrigðisstofnanir og niðurskurður og aðhald í fjármálum og rekstri einkennt andrúmsloftið. Meðal annars hafi starfsemi fæðingadeildarinnar gengið í gegnum erfitt þróunarferli sem lauk með sameiningu mæðraverndar og fæðingadeildar í Ljósmæðravaktina.
Hún segir þó jafnframt að reksturinn hafi verið í jafnvægi undanfarin ár, sem sé frábær árangur á ólgutímum, þó ekkert megi út af bregða.