Fæðingarorlof vegna andvana fæðinga verði lengt
Stuðningur þvert á flokka við frumvarp Páls Vals
Einróma stuðningur er innan velferðarnefndar Alþingis að fæðingarorlof vegna andvana fæðinga verði lengt. Þannig fái foreldrar hvor um sig þriggja mánaða fæðingarorlof. Nú er það svo að foreldrar eiga sameiginlega rétt til þriggja mánaða orlofs ef andvana fæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Ef fósturlát verður eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar rétt á tveggja mánaða orlofi samanlagt.
Frumvarpið kom til eftir að Njarðvíkingurinn Einar Árni Jóhannsson og kona hans Guðmunda Guðlaug Sveinsdóttir vöktu athygli á málinu en dóttir þeirra fæddist andvana. Þeim til undrunar kom í ljós í kjölfarið að mikið misræmi virðist vera í lögum er varða fæðingarorlof. Réttur þeirra hjóna skerðist úr níu mánuðum í þrjá.
Foreldrum andvana barna mismunað
Þannig fór þingmaðurinn úr Grindavík, Páll Valur Björnsson af stað með málið sem nú hefur verið samþykkt hjá velferðarnefnd og bíður nú afgreiðslu í þinginu. „Ég er sáttur með þessa niðurstöðu ekki síst í ljósi þess að ef ég hefði ekki gefið eftir þá hefði málið ekki fengið framgang. Þetta er skref i átt að betri umgjörð til handa þeim sem verða fyrir þeirri erfiðu lífsreynslu sem andvanafæðing er. Ég er einnig sáttur við að hafa brugðist við ákalli Einars Árna og Gullu og reynt með því að uppfylla þá skyldu mína að vera þjónn almennings í landinu. Og minningin um Önnu Lísu lifir í hjörtum okkar,“ ritar Páll Valur í pistli sem lesa má hér.
Við hjónin fengum ótrúlega góðar fréttir áðan frá þeim góða manni Páli Vali Björnssyni, þingmanni Bjartrar framtíðar,...
Posted by Einar Árni Jóhannsson on Wednesday, January 20, 2016