Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

  • Faðir gagnrýnir aðgengi á vegum íþrótta- og tómstundaráðs -MYNDBAND
    Arnar Helgi við inngang Innileikjagarðsins.
  • Faðir gagnrýnir aðgengi á vegum íþrótta- og tómstundaráðs -MYNDBAND
    Við aðalinngang 88 Hússins.
Miðvikudagur 1. apríl 2015 kl. 14:00

Faðir gagnrýnir aðgengi á vegum íþrótta- og tómstundaráðs -MYNDBAND

„Það er verið að monta sig af því á Facebook að búið sé að opna Innileikjagarðinn en það eru bara ekkert allir sem geta notað hann. Á ég bara að láta 5 ára tvíburana mína eða 9 ára gamlan son minn bera mig þarna inn? Þetta er ekki bara brot á mínum mannréttindum heldur barnanna minna líka,“ segir Arnar Helgi Lárusson, íbúi í Reykjanesbæ. Hann segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við bæjarskrifstofuna þegar hann hefur kvartað undan slæmu aðgengi. 

Í myndbandinu hér fyrir neðan má annars vegar sjá dæmi um ramp sem er með of miklum halla. Arnar Helgi, sem er mjög hraustur, á í vandræðum með að komast þarna upp. Hins vegar er sýnir hann fram á hversu erfitt er að komast að húsnæði júdódeildarinnar við Iðavelli.  

Public deli
Public deli

Slæmt aðgengi sem tengist íþróttum og tómstundum í Reykjanesbæ:

Vallarhúsið í Njarðvík

Efri hæð í Reykjaneshöllinni

Íþróttahúsið í Myllubakkaskóla

Innileikjagarðurinn

88 Húsið

Júdó-æfingaraðstaðan við Iðavelli

Box-aðstaðan í gömlu sundhöllinni

Aðstaðan við golfherminn

Bryn ballett

Vel hægt með litlum tilkostnaði

„Ég er alls ekki ánægður. Meira og minna allt sem íþrótta- og tómstundaráð gerir í Reykjanesbæ er óaðgengilegt. Sem dæmi er 88 Húsið algjörlega til skammar, þröskuldar hér og þar við innganga í æfingahúsnæðum í bænum og samkomusalur á 2. hæð í lyftulausri Reykjaneshöllinni. Varðandi Innileikjagarðinn ber bærinn fyrir sig að um sé að ræða tilraunaverkefni. Samt var hann rekinn í tvö ár áður. Arnar Helgi segist hafa spurt þá hvers vegna 50 þúsundkalli yrði ekki varið í að bæta aðgengið þar og hafa fengið þau svör að ekki væri til fjármagn í það og að garðurinn yrði aðeins opinn í tvo mánuði. „Þá greinilega skiptir engu máli þótt ég komist ekki þangað. Ég er sami þegninn og aðrir í þessu þjóðfélagi. Það eru margir fatlaðir á Suðurnesjum og kostnaðurinn er ekki það mikill að ekki sé ráðið við það. Það sem ég vil fyrst og fremst koma á framfæri er að það er víða hægt að bæta aðgengi fyrir ekki mikinn pening. Þetta er fyrst og fremst spurning um forgangsröðun.“ 

Lögleg hámarkshæð þröskulda við inngang sem þennan er 2,5 cm. 

Getur ekki aðstoðað börnin sín

Arnar Helgi segist ekki hafa fundið almennilega fyrir slæmu aðgengi í bænum fyrr en hann varð faðir sjálfur og langaði að mæta á viðburði og æfingar með börnum sínum. „Í Sókninni, sparnaðaraðgerð bæjarins, kemur fram að hún hafi ekki átt að bitna á þjónustu við íbúa. „Ef þetta bitnar ekki á þjónustunni á það þá bara að bitna á fötluðum? Ég er orðinn hundleiður á þessu og fæ engin almennileg svör nema t.d. að það sé gott hjá mér að benda á þetta og að ég geti komið inn um stóru dyrnar bakatil inn í 88 Húsið. Hvað á ég að gera þarna inni ef krakkarnir mínir þurfa að fara á klósettið og geta ekki hjálpað sér sjálfir? Það er ekkert hugsað lengra en þetta. Ég ber ábyrgð á börnunum mínum og hvert þau fara. Ég er foreldri og ég á fullan rétt á því sem íbúi í þessu bæjarfélagi því ég borga gjöld, skatta og útsvar eins og allir aðrir,“ segir Arnar Helgi.  

Arnar Helgi rann ítrekað niður aftur þegar hann reyndi að komast að júdóhúsnæðinu á Iðavöllum.

Taka þarf afstöðu um framtíð 88 Hússins

Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, segir að á undanförnum árum hafi verið unnið að því að bæta aðgengi við stofnanir bæjarins. „Árið 2013 fórum við í samstarf við Gott aðgengi sem tóku út allar stofnanir bæjarins, unnu skýrslu og út frá henni gerðum við kostnaðaráætlun á hve mikið fjármagn þyrfti til að bæta aðgengismál í Reykjanesbæ. Þarna er ekki einungis gerð úttekt á aðgengi fyrir hjólastólanotendur heldur er einnig könnuð aðstaða fyrir göngu- og handskerta, sjónskerta, heyrnarskerta, þá sem haldnir eru ofnæmi, einstaklinga með þroskahömlun og lestrarörðugleika. Alls voru um 60 milljónir áætlaðar í framkvæmdir og árið 2014 eyddum við rúmlega 23 milljónum. Til að byrja með voru áherslur á að tryggja aðgengi inn í stofnanir og að merkja bílastæði. Varðandi einstakar byggingar þá er það rétt að aðgengi í húsnæði t.d. eins og 88 Húsið algjörlega óásættanlegt miðað við notkun en þar er lyftukostnaður langstærstur í áætlun eða rétt tæpar 14 milljónir og þarf í raun að taka afstöðu til þess hvort þetta húsnæði verður nýtt áfram fyrir almenning.“

Aðgengi að Innileikjagarði bætt á næstu dögum

Í samtali við Víkurfréttir segist Stefán Bjarkason, framkvæmdastjóri íþrótta- og tómstundasviðs Reykjanesbæjar harma mjög að Arnar og hans fjölskylda geti ekki á eðlilegan hátt sótt Innileikjagarðinn á Ásbrú eins og aðrir bæjarbúar. „Við þökkum honum fyrir ábendingarnar. Búið er að semja við verktaka um að ganga þannig frá málum við húsið að hjólastólar komist þar inn. Farið verður í verkið á næstu dögum.“