Fáar uppsagnir hjá tveimur stærstu aðilunum í flugstöðinni
Lagardère Travel Retail á Íslandi sem rekur sex staði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Fríhöfnin hafa sagt 16 manns upp störfum. Lagardére tíu og Fríhöfnin sex. Samtals starfa 400-500 manns hjá þessum tveimur aðilum.
Fríhöfnin sagði upp sex starfsmönnum nú um mánaðarmótin í kjölfar gjaldþrots WOW en nú er um 210 manns við störf hjá versluninni en mest hafa um 300 manns starfað þar yfir sumartímann síðustu ár og framundan er annasamasti tími ársins. Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar segir að staðan verði skoðuð næstu vikurnar í ljósi þessara tíðinda en leitað verði allra leiða til að þau hafi sem minnst áhrif á reksturinn. Nú sé í vændum sumartraffík og þá komi til sumarleyfi starfsmanna inn í og hafi áhrif á stöðuna. Þar sé ennþá opið fyrir sumarstörf og ekki sé búið að loka þeim glugga. „Við vonum að ástandið jafni sig og þetta líti betur út í haust. Við leggjum áherslu á að verja störfin en munum þó meta stöðuna næstu vikurnar,“ sagði Þorgerður en Suðurnesjamenn hafa verið uppistaðan í vinnuafli Fríhafnarinnar í marga áratugi. Undanfarin sumur hefur Fríhöfnin þó þurft að sækja starfsmenn út fyrir Suðurnesin.
Lagardère Travel Retail á Íslandi hafa sagt 10 manns upp störfum. Lagardère á og rekur Mathús, veitingahúsið Nord, Kvikk Café, Segafredo, Pure Food Hall, Loksins bar og Loksins bar Reykjavík sem öll eru staðsett í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hjá fyrirtækinu vinna alla jafna um 150 manns.
Sigurður Skagfjörð Sigurðsson, forstjóri félagsins segist afar sorgmæddur yfir þessari nýju stöðu sem upp sé komin vegna gjaldþrots WOW. Nauðsynlegt hafi verið að grípa til ráðstafana vegna hennar. „ Okkar rekstur byggir fyrst og fremst á farþegum sem fara um Leifsstöð og núna liggur fyrir að farþegum muni fækka í kjölfarið af þessum erfiðleikum. Starfsmenn okkar hafa verið upplýstir um stöðu mála. Á næstu dögum munum við endurskoða mönnunarþörf okkar fyrir sumarið, en ljóst er að staðan mun hafa áhrif á fyrri áætlanir okkar í þeim efnum líka.“
Uppsagnirnar og skipulagsbreytingar munu snerta allar rekstrareiningarnar að einhverju leyti, en starfsmennirnir sem um ræðir eru allir fastráðnir í ýmist fullu starfi eða hlutastarfi. Meirihluti starfsmanna eru í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis, en fulltrúum verkalýðsfélagsins hefur verið greint frá stöðu mála. Uppsagnarfrestur er frá einum til þriggja mánaða.