Fá innbrot en meira um hraðakstur
Fá innbrot voru á Suðurnesjum um verslunarmannahelgina en talsvert var um hraðakstur. Meirihluti þeirra sem aka of hratt eru erlendir ferðamenn sem gera upp á staðnum áður en þeir halda af landi brott.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur tekið saman atvik verslunarmannahelgarinnar.
Innbrot á svæðinu voru tvö en síðan hafa bæst við tvö önnur, síðustu daga.
Fjörtíu og átta voru teknir fyrir of hraðan akstur og var hann á bilinu 105-150km/klst. Aðallega voru það erlendir ferðamenn sem voru á ferð og gerðu þeir upp skuld sína við ríkið á staðnum, áður en þeir héldu af landi brott.
Þá voru teknir fjórir ökumenn fyrir ölvunarakstur og níu fyrir að vera grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna. Í kjölfar tveggja fíkniefnaakstra voru framkvæmdar tvær húsleitir og fannst lítilræði af efnum á stöðunum; amfetamín og tóbaksblandað hass. Frá þessu var greint í frétt á mbl.is.