Fréttir

Fá ekki sex mánaða frest til að bæta ráð sitt
Fimmtudagur 16. mars 2017 kl. 09:56

Fá ekki sex mánaða frest til að bæta ráð sitt

Umhverfisstofnun boðar úttekt á starfsemi United Silicon

Umhverfisstofnun fellst ekki á þá ósk United Silicon hf. að fyrirtækið fái sex mánuða frest til að bæta úr frávikum. Um 300 kvartanir hafa borist frá íbúum Reykjanesbæjar á þeim fjórum mánuðum sem verksmiðja United Silicon í Helguvík hefur verið starfrækt.

Í frétt á vefsíðu Umhverfisstofnunar segir að mikilvægt sé að nú þegar verði í varúðarskyni stigin markviss skref til að ná betri tökum á rekstri verksmiðjunni hvað varðar mengunarvarnir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

United Silicon taldi að óháð verlkfræðileg úttekt væri óþarflega íþyngjandi fyrir fyrirtækið en á það fellst Umhverfisstofnun ekki. „Vill Umhverfisstofnun benda á að fram hefur komið að vegna umfangsmikilla og endurtekinna rekstrarvandamála sé umfang eftirlits með verksmiðjunni fordæmalaust. Þá hefur rekstur verksmiðjunnar sérstöðu hvað varðar eðli, umfang framleiðslu og nálægð við íbúabyggð,“ segir í bréfi Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun telur ekki nægilegar upplýsingar fram komnar til að falla frá þeim áformum um að fara þurfi fram verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar. Stofnunin mun því á næstu vikum leita eftir tilboðum í slíka úttekt. Rekstraraðili verður upplýstur um umfang úttektarinnar og úttektaraðila áður en af henni verður.

Umhverfisstofnun telur þó jákvætt að rekstraraðili vinni að því að greina vandamál í rekstri verksmiðjunnar og setji fram úrbótatillögur bæði með samstarfi við framleiðanda mengunarvarnabúnaðar og með öðrum utanaðkomandi sérfræðingum. Stofnunin óskar eftir að fá allar upplýsingar er út úr þeirri greiningarvinnumunu koma um leið og þær liggja fyrir og geta þær upplýsingar haft áhrif á umfang þeirrar verkfræðilegu úttektar sem stofnunin hefur boðað.