Eyðibýli frá afskekktum sveitabæ
Gunnar Ingi Guðmundsson er að nema kvikmyndatónsmíðar. „Ég sá fyrir mér afskekktan sveitabæ sem hafði farið í eyði,“ segir tónlistarmaðurinn Gunnar Ingi Guðmundsson, sem er að gefa út sólóplötu sem hann nefnir Eyðibýli.
Gunnar hefur verið viðloðandi tónlist í langan tíma, tók þátt í sveitaballapoppinu á sínum tíma, hefur samið talsvert af efni, bæði fyrir sig og aðra en alltaf hafði kvikmyndatónlist blundað í honum svo hann yfirgaf sveitaballagólfið og menntaði sig í kvikmyndatónlist. „Ég hef alltaf haft mjög gaman af kvikmyndatónlist, líklega vaknaði áhuginn þegar ég horfði á þættina um Nonna og Manna á sínum tíma. Ég upplifði tónlistina eins og hver og einn karakter hefði sitt eigið stef og hef alltaf haft mikinn áhuga fyrir þessum stóru tónverkum sem koma fyrir í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Mín uppáhalds kvikmyndatónskáld eru John Williams, James Horner og Alan Silvestri.
Þegar ég var um tvítugt var ég að spá í að flytja til Bandaríkjanna og læra fræðin en mér fannst það of stórt stökk og hélt að það væri of stór pakki fyrir mig, svo ég lét mér nægja að fara í fjarnám við hinn virta Berklee College of music í Boston. Þegar ég byrjaði að vinna Eyðibýli og var að ákveða þema plötunnar, sá ég fyrir mér afsekktan sveitabæ, ástfangin hjón, síðasta ábúandann, reimleika á bænum, ættingja sem komu í heimsókn o.fl. og fannst að þar með þyrfti tónlistin að vera svolítið dökk og dramatísk en þó björt á köflum. Úr varð saga sem kemur fram á tíu nýjum tónverkum á plötunni sem kemur út á Spotify og öllum helstu veitum 1. september. Upptökur fóru fram í Stúdíó Bambus og hófust snemma í janúar á þessu ári og stóðu fram í júní. Ég fékk margt frábært tónlistarfólk úr Sinfóníuhljómsveit Íslands til að spila inn á plötuna og Stefán Örn Gunnlaugsson annaðist upptökur og hljóðblöndun.
Markmið mitt með gerð þessarar plötu er að vekja athygli á mér sem tónskáldi og höfundi, með þeirri von að ég fái verkefni við að semja tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti,“ sagði þessi efnilegi tónlistarmaður að lokum.
Meðfylgjandi er myndband við titillag plötunnar, Eyðibýli.