Eve Ensler á V-deginum á Íslandi
Höfundur Píkusagna eða Vagina Monologues, Eve Ensler, verður gestur á V-deginum á Íslandi sem haldinn verður á morgun 8. mars. Eve Ensler er stofnandi alþjóðlegu V-dagssamtakanna en markmið samtakanna er að binda endi á ofbeldi gegn konum um allan heim og munu samtökin starfa þar til því markmiði hefur verið náð. Samtökin voru stofnuð í New York árið 1998 í tengslum við Píkusögur.
Dagskrá V-dagsins er þéttskipuð og hefst annað kvöld kl. 21:00 í Íslensku óperunni. Húsið opnar kl. 20:00 með fordrykk. Söng- og dansatriði verða á dagskránni ásamt því munu þær Ilmur Kristjánsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttur fara með einleik úr Píkusögum.
Síðast en ekki síst mun Eve Ensler vera með uppákomu á sína vísu og mun hún taka sérstaklega fyrir umskurð á konum og það hjálparstarf sem hún hefur unnið í tengslum við það í Kenía. Það er í samhengi við þema dagsins þar sem verður lögð áhersla á alþjóðlegan þátt samtakanna og minnt á að V-dagurinn og baráttan gegn ofbeldi á konum er hluti af miklu stærri heild. Að auki koma fram, Gísli Marteinn Baldursson, Sigurður Kári Kristjánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ríkharður Daðason, Egill Helgason, Þorgils Óttar Mathiesen, Björn Thors ofl. Aðalsamstarfsaðili V-dagsins er Landsbankinn.
www.vdagur.is