Fréttir

Erum vongóð
Íbúar mótmæla stóriðju í Helguvík
Föstudagur 31. júlí 2015 kl. 18:46

Erum vongóð

-Mótmælendur kísilvers í Helguvík skila inn undirskriftarlista um íbúakosningu

Hópur íbúa í Reykjanesbæ sem stendur á bak við undirskriftarsöfnunina Helguvík - vilt þú njóta vafans? skilaði í dag inn undirskriftum til Þjóðskrár þar sem skorað er á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ að láta fara fram íbúakosningu um hvort rétt hafi verið að breyta deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Söfnunin stóð yfir frá 2. júlí til 30. júlí og gekk að sögn Ellert Grétarssonar ábyrgðarmans vel þrátt fyrir slæma tímasetningu að þeirra mati.

Söfnun gekk í það heila mjög vel en það var vissulega á brattan að sækja þar sem hún fór fram á versta hugsanlega tíma þegar stór hluti bæjarbúa er burtu í sumarfríum. Það kom vel ljós þegar gengið var í hús að mjög margir voru ekki heima.. Þetta vissu bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ auðvitað og lögðu þess vegna gríðarlega áherslu á að söfnunin færi fram núna þrátt fyrir að við í baráttuhópnum og Þjóðskrá værum sammála um að fresta henni fram í ágúst. En forsvarsmönnum bæjarfélagsins varð ekki haggað enda hefur það komið í ljós í samskiptum okkar við þá í aðdraganda undirskriftasöfnunarinnar að þeir hafa fyrst og fremst verið að gæta hagsmuna Thorsil. Almenningur er ekki að kjósa fólk í bæjarstjórnir til að gæta einkahagsmuna einhverra fyrirtækja og bæjarfulltrúar verða bara að átta sig á því

Að sögn Ellerts gekk rafræni hluti söfnunarinnar síður og ljóst sé að það fyrirkomulag virki ekki vel.

Ef flækjustigið er of mikið til að geta tekið þátt í rafrænni kosningu eða undirskriftasöfnun dregur það greinilega úr þátttöku almennings. En viðtökur við hefðbundum undirskriftalistum á pappír voru góðar og fáir sem vildu ekki skrifa undir. Ef við hefðum verið að þessu á öðrum tíma hefði svörunin orðið mun meiri enda greinilegt að bæjarbúum líst illa á alla þessa verksmiðjuvæðingu í Helguvík og vilja hafa eitthvað um málið að segja.

Ekki er hægt að segja til um endanlegan fjölda fyrr en Þjóðskrá hefur farið yfir gögnin en að sögn Ellerts er hópurinn vongóður og telur sig hafa ástæðu til þess.