Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 13. desember 2000 kl. 21:00

Erum við á réttri leið?

Grunnskólar á Suðurnesjum koma ekki nógu vel út, samkvæmt niðurstöðum samræmdra prófa í 4. og 7. bekk. Árangur skólanna hefur þó batnað lítillega síðan í fyrra enda hafa kennarar og skólastjórnendur lagt sig alla fram við að ná settu marki. Ýmsar ástæður liggja að baki þessum lágu meðaleinkunnum og hér á eftir verður farið nánar ofan í saumana á málinu.
Meðaleinkunn hjá 4. bekk á landinu öllu var 6,4 í stærðfræði og 6,1 í íslensku. Meðaleinkunn á Suðurnesjum var hins vegar 6,0 í stærðfræði og 5,5 í íslensku. Athygli vekur að einkunn í íslensku er töluvert langt undir landsmeðaltali.
Einkunnir í 7. bekk eru nær landsmeðaltali. Meðaleinkunn í stærðfræði í grunnskólum á Suðurnesjum er 6,5 og 6,4 í íslensku en meðaleinkunn á landinu er 6,7 í stærðfræði og 6,8 í íslensku.
Þess ber að geta að uppgefnar einkunnir eru raðeinkunnir sem eru ekki samanburðarhæfar á milli greina. Raðeinkunn segir til um röð nemenda miðað við aðra sem tóku prófið, þ.e.a.s. hve hátt hlutfall nemenda er með ákveðna einkunn og lægri. Sem dæmi má nefna að nemandi með raðeinkunn 78 stendur sig jafnvel eða betur en 78% nemenda á landinu öllu.
Þeir sem vilja kynna sér prófin betur geta skoðað heimsíðu Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála, www.rum.is

Heiðarskóli
Að sögn Árnýjar Pálsdóttur, skólastjóra Heiðarskóla er mikilvægt að athuga vel hvaða námsþættir ganga vel og hvar er hægt að gera betur, þegar niðurstöður samræmdra prófa berast skólanum.
Heiðarskóli fékk styrk úr Þróunarsjóði grunnskóla fyrir þetta skólaár til þess að efla íslensku kennsluna í skólanum og Árný segist binda vonir við að það geti skilað nemendum betri árangri á samræmdum prófum í framtíðinni.
Niðurstöður samræmdra prófa í íslenska í 7. bekk var 6,7 og meðaltal í stærðfræði var 6,8, sem er nánast hið sama og landsmeðaltal. Meðaltal í íslenska í 4. bekk var 5,8 og í stærðfræði var meðaltal 6,3.
„Markmiðið er að sjálfsögðu að bæta árangur skólans“, segir Árný. „Til þess að bæta árangur þurfa allir aðilar skólasamfélagsins að taka höndum saman; nemendur, foreldrar og kennarar. Það er marg rannsakað að áhugi foreldra á námi barna sinna hefur afgerandi áhrif á velgengni þeirra í skóla. Við í Heiðarskóla höfum starfandi við skólann öflugt foreldrafélag sem styður vel við bakið á skólastarfinu.“


Stóru-Vogaskóli

Snæbjörn Reynisson, skólastjóri Stóru-Vogaskóla sagði að skólinn hefði komið illa út úr prófunum að þessu sinni. Einkunnir í 7. bekk var meðaltal í íslensku 6,2 og í stærðfræði 5,9. Í 4. bekk var meðaltal í íslensku 5,1 og í stærðfræði 5,4.

Mikil hreyfing á börnum
Snæbjörn telur ýmsa ástæður vera fyrir þesari slöku útkomu og nefnir í því samhengi sögu núverandi 7. bekkjar.
„Það byrjuðu 22 börn í þessum bekk haustið 1994. Í vetur eru 22 nemendur í bekknum og af þeim eru 10 nemendur eftir af þeim hópi sem hóf nám 1994. Þegar þessir nemendur tóku samræmd próf 1997 sem 4. bekkur, voru 18 nemendur í hópnum, af þeim eru nú 13 eftir. Það þýðir að á þeim tíma sem liðinn er hafa 5 nemendur farið úr bekknum en 9 komið inn. Að öllu samanlögðu má sjá að mjög miklar breytingar hafa orðið innan bekkjarins á þessum rúmlega 6 árum sem liðin eru frá því að börnin hófu skólagöngu sína. Slíkar aðstæður geta valdið vandkvæðum í skólastarfi. Á hitt má einnig benda að ef þeir nemendur eru teknir út sem tóku samræmd próf í 4. bekk 1997 kemur í ljós að þeir hækka sig verulega í íslensku, um einn heilan, en standa í stað í stærðfræði“, segir Snæbjörn.

Fjöldi nýbúa
Varðandi útkomuna í 4. bekk segir Snæbjörn að hún veki upp aðrar vangaveltur, þ.e. „samkeppnisstöðu“ þeirra skóla sem hafa hátt hlutfall nýbúa og/eða nemenda með annað móðurmál en íslensku.
„Stóru-Vogaskóli er með óvenju hátt hlutfall nýbúa, tvítyngdra nemenda og nemenda sem eru nýkomnir úr öðru málumhverfi. Í einum bekk fer hlutfall slíkra nemenda upp í tæpan helming. Þannig aðstæður gera kennsluna bæði flóknari og þar með vandasamari, auk þess sem ekki er von til að slíkur hópur nái sambærilegum meðaleinkunnum og þeir hópar sem ekki hafa við sömu hindranir að glíma.“

Ætlum að bæta okkur
Snæbjörn leggur áherslu á að niðurstöður samræmdra prófa í 4. og 7. bekk í haust kalli á viðbrögð í þá átt að reyna að bæta árangurinn. „Það má undirbúa börnin betur undir að taka slík próf og virkja foreldra betur varðandi nám barnanna, enda þykir sannað að þeir nemendur sem eiga trausta, vel upplýsta, áhugasama og jákvæða foreldra, standa sig hvað best.“
Þess má geta að hlutfall réttindakennara er um 80% í skólanum. Miðað við skóla á Suðurnesjum er staðan sé sæmileg, en miðað við höfuðborgarsvæðið er hún óviðunandi að sögn Snæbjörns.

Gerðaskóli

Gerðaskóli er nálægt Suðurnesjameðaltal, en aðeins yfir því í báðum greinum í 7. bekk. Skólinn er hálfum undir landsmeðaltali í báðum greinum í 4. bekk og 0,3 undir í íslensku í 7. bekk og á landsmeðaltali í stærðfræði í 7.bekk.
Einkunnir í 4. bekk eru sem hér segir: íslenska 5,5 og stærðfræði 5,9. Meðaltal í 7. bekk er 6,5 í íslensku og 6,7 í stærðfræði.

Veldur okkur áhyggjum
Að sögn Einars V. Arasonar, skólastjóra, velur útkoman á Suðurnesja í heild áhyggjum, sem og oft áður. „Þegar horft er á kennaraflotann, hæstu einkunnir í skólunum og velvilja yfirvalda í þessum sveitarfélögum, þá er maður ósáttur við heildarútkomuna“, segir Einar. „Kennarar eru að fá
fína vinnu og topp einkunnir út úr sumum nemendum, en það eru bara of margir nemendur að fá lágar einkunnir. Við munum skoða okkar niðurstöður og bera þær saman við fyrri niðurstöður til að sjá eitthvert mynstur sem gæti gefið vísbendingar um hvernig hægt sé að bæta kennsluna enn meira“, segir Einar.

Gott kennaralið
Einar leggur áherslu á að í 4. og 7. bekkjum sé einvalalið réttindakennara sem leggja hart að sér.
„Það má segja að vöntun sé á menntuðum kennurum þó það snerti ekki þessa bekki og fög nákvæmlega, t.d. vantar myndmennta- og tónmenntakennara“, segir Einar þegar hann er spurður út í stöðuna í kennaramálum. Hann bendir einnig á, þegar verið er að bera saman skóla og skólasvæði, að mikilvægt sé að athuga vissa hluti, t.d. hlutfall nemenda sem eru undanþegnir prófum, fjölda nýbúa í bekkjum, fjölda fatlaðra og sérkennslunemenda.
„Í heildina erum við nokkuð sátt þó við viljum gera betur og munum leita leiða til þess. Þá þarf að koma til árvekni, vilji og samstarf kennara og foreldra. Viðhorfs almennings á menntun og skólagöngu skipir einnig mjög miklu máli. Skólastarf er meira en pössun á nemendum, það skiptir máli að læra og að standa sig í skólanum“, segir Einar að lokum.


Myllubakkaskóli,
Meðaleinkunn í stærðfræði í 4. bekk í Mylllubakkaskóla er 6,0 og í íslensku 5,6. Meðaleinkunn í stærðfræði í 7. bekk er 6,1 og 6,4 í íslensku.
Vilhjálmur Ketilsson segir að nemendur í 7. bekk hafa hækkað töluvert í íslensku síðan þau tóku prófið í 4. bekk, eða úr 5,95 í 6,4, sem verður að teljast glæsilegur árangur. 7. bekkjar árgangurinn stendur hins vegar í stað í stærðfræði þegar horft er á milli ára.

Siglum upp á við
„Við vorum búin að vera með átak í stærðfræði sem skilaði okkur árangri í tvö ár. Við hefðum viljað sjá frekari árangur og þurfum að skoða hvers vegna árangurinn heldur ekki áfram að batna. Við í Myllubakkaskóla erum nú á meðalsiglingu á Suðurnesjum. Það er einnig mikið áhyggjuefni af hverju við erum slökust á landinu“, segir Vilhjálmur en segist ekki geti svarað hvað veldur.
„Við höfum reynt að taka á í íslensku og stærðfræði og það hefur skilað sér lítillega en ekki nóg. Þetta siglir vonandi hægt og rólega upp á við héðan í frá.“
Vilhjálmur segir að stórfelldar breytingar á skólunum hafi tvímælalaust haft áhrif á skólastarfið, þó að það sé langt frí frá einhlít skýring.


Holtaskóli

Að sögn Jónínu Guðmundsdóttur, aðstoðarskólastjóra Holtaskóla, eru niðurstöður könnunarprófanna dálítið merkilegar í Holtaskóla.
„Í 7. bekk komu nemendur bærilega út á landsvísu og vel miðað við jafnaldra sína hér í bæ. Í íslenskunni var meðaleinkunn skólans í 7. bekk yfir landsmeðaltali og í stærðfræði jöfn landsmeðaltalinu. Hins vegar veldur útkoman í 4. bekk okkur nokkrum áhyggjum, þar fara
nemendur okkar halloka gagnvart öðrum nemendum samkvæmt meðaleinkunn. Þó eru í þeim árgangi ýmsir mjög duglegir nemendur.“

Niðurstöður eru ekki lokadómur
Jónína segir vera mjög erfitt að henda reiður á því hvað veldur þessum mun á árgöngum og eflaust komi þar margt til. „Ég bendi á að nemendur beggja árganga hafa verið hér í skólanum jafnlengi, koma úr sama umhverfi og aðstæður þeirra hér hafa verið mjög svipaðar. Ég held hins vegar að við ættum ekki að velta okkur um of upp úr slökum eða góðum árangri heldur einbeita okkur að því að taka stefnuna út frá þeim mikilvægu upplýsingum sem niðurstöður könnunarprófanna gefa. Þessi próf eru ekki lokadómur heldur eru þau leiðbeinandi hvað varðar næstu skref í námi nemendanna. Það er því að okkar áliti mjög mikilvægt að allir nemendur
skólans taki þessi próf og að skóli og heimili vinni síðan saman að þeim úrbótum sem gera þarf“, segir Jónína.

Góð samvinna við foreldra
Skólastjórnendur og kennarar í Holtaskóla hafa skoðað útkomuna og ætla að nýta sér hana eins og til er ætlast, þ.e. að aðlaga kennsluna að þörfum nemenda.
„Við finnum fyrir miklum vilja foreldra til samvinnu í hinum ýmsu þáttum skólastarfsins þannig að engin ástæða er til annars en að horfa bjartsýn fram á veginn og taka sameiginlega á. Á hinn bóginn langar mig til að nota þetta tækifæri til að hvetja til meiri umræðu um skólamál í samfélaginu okkar“, segir Jónína og bendir á að ástand skóla sé eitt af því sem fólk veltir rækilega fyrir sér þegar það flytur sig um set.

Þarf að treysta innviði skólans
„Nú hefur verið staðið glæsilega að skipulagsbreytingum á grunnskólanum hér í bæ og hinn ytri rammi hans er orðinn til fyrirmyndar. Hvað með hið innra starf?“, spyr Jónína og leggur áherslu á að nú þurfi að hefjast handa við að byggja upp innra starf jafn glæsilega og hina ytri umgjörð.
„Í Reykjanesbæ höfum við marga úrvalskennara sem margir hverjir eru burðarásar alls skólastarfs en okkur vantar fleiri réttindakennara.“
„Við verðum með öllum ráðum að laða fólk aftur að kennslunni í stað þess að fullmenntaðir kennarar sækja í miklum mæli í önnur störf jafnvel hjá sjálfu bæjarfélaginu“, segir Jónína og beinir þeirra spurningu til bæjaryfirvalda hver stefna þeirra sé í því að halda kennurum ánægðum í því starfi sem þeir eru menntaðir til og þar sem þeirra er sár þörf.
„Starf kennarans er eitt mikilvægasta starfið í samfélaginu, um það eru menn sammála a.m.k. á hátíðarstundum. Kennarastarfið er auk þess heillandi og gefandi starf og ætti sannarlega að vera þess virði að mennta sig til. Nú setjumst við niður og metum þetta starf að verðleikum.“


Njarðvíkurskóli

Niðurstöður í Njarðvíkurskóla eru ekki enn alveg marktækar þar sem í ljós hefur komið að endurskoða þar útkomu hóps barna í 7. bekk. Um er að ræða ritunarþátt í íslensku. T.d. þarf að endurskoða prófið hjá 19 nemendum í Njarðvíkurskóla. Endanleg niðurstaða mun því ekki liggja fyrir fyrr en eftir tvær vikur.
Meðaltal í 4. bekk í íslensku var 5,8 og í stærðfræði 6,05. Meðaltal í 7.bekk í íslensku var 6,5 og í stærðfræði 6,8.

Hvað er góður skóli?
Gylfi Guðmundsson, skólastjóri segist alltaf vera svolítið hræddur við að ræða um útkomu á samræmdum prófum vegna þess að hann óttast að menn gleymi fyrir vikið að árangur í þeim segir ekki svo mikið um hvort skóli er góður eða slæmur.
„Við eigum einnig að tala um árangur í uppeldi og árangur sem sýnir að nemanda líður vel í skóla“, segir Gylfi, „og að skólinn kunni að takast á við einelti, kunni að takast á við erfiðar aðstæður sem upp koma og geri það. Þetta eru allt atriði sem skipta afar miklu máli þegar við tölum um góðan skóla. Það kemur svo ótal margt annað til greina en einkunnir á samræmdum prófum.
Máli sínu til stuðnings bendir Gylfi á bókina „Nordiska skolar i utveckling” þar sem dregnir eru saman 9 mikilvægir punktar um hvernig góður skóli á að vera. Þar segir í upptalningunni um góðan skóla:
1. Markmið skólans eru skýr og miklar væntingar eru gerðar til nemenda.
2. Skólinn einkennist af virkum áhuga á því að sýna árangur.
3. Foreldrar taka þátt í skólalífinu og styðja starf skólans.
4. Skólinn leggur áherslu á að þróa námsefni og kennsluaðferðir.
5. Skólinn leggur áherslu á vinnufrið og góðan starfsanda.
6. Stjórnun beinist að aðalviðfangsefni skólans – að barnið fái að þroskast.
7. Stjórnendur og starfslið allt hafi jákvæða afstöðu til skólaþróunar.
8. Fagleg endurmenntun fyrir kennara er fastur liður í skólastarfinu.
9. Skólinn fær stuðning frá umhverfinu.

Velvilji bæjartjórnenda
Að mati Gylfa uppfylla skólar í Reykjanesbæ ágætlega þessi skilyrði en hann segir að bæjarstjórnin hafi staðið sig vel og geti verið stolt af sínu verki.
„Myndarlegur nýr skóli er risinn í Heiðarbyggð og góðar endurbætur og viðbyggingar við hina skólana; skólaeldhús, matur fyrir nemendur og allir skólarnir eru nú einsetnir. Það er því óhætt að óska bæjarstjórn til hamingju með hversu vel hefur gengið að koma öllu heim og saman“, segir Gylfi og bætir við að sveitarfélagið sé með þessum aðgerðum að tryggja að nemendum og starfsfólki skólanna bestu aðstæður sem til eru, svo að árangur náist í skólastarfi. Gylfi er þess fullviss að einsetning skólanna muni bæta skólastarf og þá um leið námsárangur er fram líða stundir.

Starfsfólk leggur sig 100% fram
„Það er einnig ljóst að kennarar og skólastjórnendur hafa fullan hug á að gera vel, vinna með þeim hætti að aðstæður allar og vinna með nemendum skili sér á réttan hátt. Trúlega má alltaf bæta skólastarf og finna leiðir til að ná betri árangri og starfsfólk skólanna er sífellt að leita leiða til þess. Ég tel að skólastjórnendur og starfsfólk þurfi að einbeita kröftum sínum að því að skapa gott og jákvætt námsumhverfi til að tryggja að börnunum líði vel í skólanum og hafi jákvæðar minningar þaðan er frá líður. Þetta er grundvallaratriði. Skóli á auk þess að vera lifandi stofnun sem leggur rækt við að gera nemendur sjálfstæða og kenna þeim að virða skoðanir og sjálfstæði annarra“, segir Gylfi.

Traust bakland er lykilatriði
Baklandi, þ.e. foreldrar og forráðamenn nemenda, eru ekki síður mikilvæg, að mati Gylfa. „Menntun þeirra og viðhorf skipta máli en þó alveg sérstaklega áhugi þeirra og vilji til að hjálpa börnum sínum og fylgjast með starfi þeirra. Sá bakgrunnur skiptir sköpum, hvað varðar námsárangur á samræmdum prófum og árangur yfirleitt, utan skóla sem innan. Foreldri þarf að vera vakandi hverja stund yfir velferð barns og sýna starfi þess og vinnu áhuga, alla daga. Þetta er lykilatriði“, segir Gylfi og nefnir í beinu framhaldi agalaust uppeldi sem stendur á ótraustum grunni þar sem börn og unglingar verða öryggislausir og geta því ekki tileinkað sér þekkingu og færni til að alvöru nám eigi sér stað.
„Frá fyrsta skóladegi í 6 ára bekk þarf foreldri að setjast með barninu sínu og veita því aðstoð. Lítil börn ráða ekki við það ein. Þetta þarf að verða sjálfsagður þáttur í uppeldi barns, helst allan grunnskólann. Með þeim hætti tekst að aga barn til þess að það telji það sjálfsagðan hlut að sinna náminu eins og hverri annarri vinnu því nám er fyrst og fremst vinna. Ég vil því enn leggja áherslu á þá skoðun mína að foreldrar eru baklandið sem er svo mikilvægt svo árangur náist.“


Grindavík

Niðurstöður úr samræmdum prófum í Grunnskólanum í Grindavík voru eftirfarandi: Meðaltal í 7. bekk í íslensku var 6,7 og 7,2 í stærðfræði. Í 4. bekk var meðaleinkunn í íslensku 5,6 og í stærfræði 6,1. Meðaleinkunn í 4. og 7. bekk er að þessu sinni yfir meðali á Suðurnesjum bæði í íslensku og stærðfræði.
Að sögn Gunnlaugs Dan Ólafssonar, skólastjóra í Grindavík er markmið prófanna einkum að meta að hvaða marki nemendur hafa náð grundvallarkunnáttu og færni sem frekara nám byggist á. Hann segir að niðurstöður prófanna eiga þess vegna að vera leiðbeinandi um áframhaldandi skipulag á námi nemenda.
„Það er því mikilvægt fyrir skóla og foreldra að að líta á niðurstöður úr prófunum sem hjálpartæki til þess að meta námsstöðu og koma til móts við þarfir þeirra. Að mínu mati þjónar það ekki tilgangi prófanna að líta á þau sem endanlegan dóm um námsgetu barna eða frammistöðu skóla. Meginviðfangsefnið má ekki verða endalaus samanburður á milli skóla, heldur mikið fremur að hver og einn skóli sé að bæta sinn árangur og skólastarf“, segir Gunnlaugur.
Að mati Gunnlaugs eru forsendur fyrir góðum námsárangri margþættar, og snúa bæði að skólunum og ákveðnum þáttum í samfélagsgerðinni.
„Gæði skólastarfs verður heldur ekki metið út frá niðurstöðum á samræmdum prófum. Það er gert með allt öðrum aðferðum. Því er hins vegar ekki að neita að það hlítur að vera eftirsóknarvert fyrir skóla að ná góðum árangri á samræmdum prófum. Grunnskólinn í Grindavík hefur ekki verið með sérstakt átak í gangi í íslensku og stærðfræði vegna samræmdra prófa, en höfum hins vegar unnið að því að bæta skólastarfið almennt. Niðurstöðurnar að þessu sinni er betri en oft áður og sýna framfarir hjá nemendum. Þær eru okkur því mikil hvatning.“

Sandgerði
Guðjón Þ. Kristjánsson, skólastjóri í Sandgerði segir enga sérstaka skýringu vera að baki einkunnum en meðaltal í 7. bekk í íslensku er 5,0 og í stærðfræði 4,9. Meðaleinkunn í 4. bekk í íslensku er 4,8 og í stærðfræði 5,8. Guðjón bendir þó á að skekkja kunni að vera í niðurstöðum úr íslenskuprófi í 7. bekk þar sem misræmi hafi verð í yfirferð. Það má því búast við að einkunn
í íslensku í 7. bekk hækki eitthvað.
Nemendur í 7. bekk eru nú að taka samræmd próf í annað sinn og þegar þau eru borin saman við sjálfan sig og aðra nemendur á landinu má segja að þau haldi sinni stöðu frá því í 4. bekk í íslensku og sæki sig aðeins í stærðfræði.
4. bekkur var síðasta ár með sjöttu hæstu meðaleinkunn á landinu í stærðfræði og var unnið með þá nemendur á mjög svipaðan hátt og 4. bekk í ár, að sögn Guðjóns.
„Okkar skóli hefur ekki neina sérstöðu að ég tel. Þó er þess að geta að 4. bekkur er fjölmennasti bekkurinn í skólanum með 26 nemendur. Almennt séð hefur staða kennaramála ætíð verið okkur erfið. Það hefur verið allt of mikil hreyfing á kennurum árlega og hátt hlutfall leiðbeinenda. Það má þó segja að við höfum verið mjög heppin síðastliðið haust með það fólk sem við fengum til starfa og staðan að því leyti betri en mörg ár á undan. Eftir því sem fregnir af samningamálum grunnskólakennara herma virðist sem heldur muni rofa til í kennaramálum á næsta ári. En lág laun kennara eru orðin helsta fyrirstaðan fyrir því að fá menntað fólk til starfa í skólunum“, segir Guðjón.
„Við höfum átt á brattan að sækja hvað varðar einkunnir á samræmdum prófum undanfarin ár og hefur verið brugðist við því á margþættan hátt innan skólans. Við höfum fulla trú á því að vinna að gæðakerfi skólans muni innan tíðar skila okkur bættum árangri. Sömuleiðis endurskoðun námsefnis og yfirferðar í öllum námsgreinum. Þá leggjum við áherslu á að skólinn snýst ekki aðeins um samræmdu prófin og mikið verk er framundan í eflingu verklegs náms- og listgreina sem ekki er síður mikilvægt.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024