Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Erum ánægðir ef enginn þarf að gera neitt - þá vitum við að tækin eru að virka
Föstudagur 9. mars 2007 kl. 14:27

Erum ánægðir ef enginn þarf að gera neitt - þá vitum við að tækin eru að virka

Um 1200 tonn af loðnuhrognum hafa verið fryst á loðnuvertíðinni hjá Saltveri í Njarðvík ásamt 800 tonnum af loðnu fyrir Rússlandsmarkað. 
Þorsteinn Erlingsson hjá Saltveri segir þetta mesta magn sem unnið hafi verið af loðnu hjá fyrirtækinu til þessa. Að auki hafa 20 þúsund tonn farið til bræðslu í Helguvík.

Í byrjun síðasta árs var sett upp ný vinnslulína fyrir hrognafrystinguna í Saltveri Þar er sjálfvirknin alls ráðandi og þarf afar fá handtök við vinnsluna miðað við það sem áður þekktist. Þeir fáu starfsmenn sem við hana starfa eru meira í því að fylgjast með að allt gangi snurðulaust fyrir sig og grípa inn í ef eitthvað fer úrskeiðis. „Við erum ánægðir ef enginn þarf að gera neitt, því þá vitum við að að tækin eru að virka,”, sagði Þorsteinn í samtali við VF.

Þorsteinn segir að helmingi meira magn hafi verið unnið  hjá Saltveri á þessari loðnuvertíð en í fyrra en þá var jafnframt kvótinn helmingi minni. Síðustu þrjár vikurnar hefur verið unnið á vöktum allan sólarhringinn.

„Við höfum verið að frysta 160 - 170 tonn á sólarhring, haft þokkalega vel undan og erum mjög ánægðir með nýju vinnslulínuna sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Við sjáum góða framtíð í henni en við værum hættir í loðnuvinnslu ef hún hefði ekki komið til,” sagði Þorsteinn.

Loðnuvertíðinni er nú að ljúka að síðustu farmarnir að berast á land en mörg skipanna hafa klárað kvótann sinn. Loðnan er á leið inn á Breiðafjörðin þar sem hún hrygnir og drepst síðan.

Saltfiskvinnslan hefur einnig gengið hjá Saltveri en bátur félagsins, Erlingur KE hefur verið að fiska vel síðan í haust og er langt kominn með kvótann.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024