Erum að hreinsa upp skítinn
- segir nýr meirihluti í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Sjálfstæðismenn leggjast gegn launalækkun hjá starfsmönnum.
„Maður verður dálítið sár og svekktur að fráfarandi forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar skuli gagnrýna hagræðingaraðgerðir og segja að við séum að gera þetta í fljótheitum. Að núverandi meirihluti sé vondi gæinn þegar verið er að taka ákvörðun um nýjar skattlagningar og niðurskurð. Ef einhver hér inni heldur að þetta sé auðvelt þá er það ekki svo,“ sagði Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs og oddviti Samfylkingarinnar, á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ sl. þriðjudag.
Harkalegar umræður urðu milli minnihluta og meirihluta vegna aðgerða til að laga fjárhagsstöðu bæjarfélagsins. Böðvar Jónsson flutti tillögu frá Sjálfstæðismönnum þar sem sagt er að þeir leggist gegn ákvörðun bæjarráðs um kjaraskerðingu starfsmanna sem feli í sér umtalsverðar launalækkanir. „Ákvörðunin hafi verið tekin með fljótfærnislegum hætti og án nákvæmrar greiningarvinnu,“ en sjá má bókunina í heild á Víkurfréttavefnum, vf.is.
Það var eins og Böðvar hefði hent inn sprengju á fundinn því í framhaldi komu bæjarfulltrúar nýja meirihlutans upp og fóru mikinn í máli sínu. Sögðu að það væri hart að sjálfstæðismenn sem hefðu komið bæjarfélaginu í þessa slæmu stöðu kæmu nú upp og gagnrýndu þær ákvarðanir sem nauðsynlegt væri að taka. Þeir væru nú að hreinsa upp skítinn eftir þá. Friðjón Einarsson greindi frá samningi sem gera þurfti við eftirlitsnefnd sveitarfélaga að kröfu hennar vegna slæmrar stöðu í fjármálum; samningi sem Reykjanesbæ var skylt að ganga að, fyrst allra sveitarfélaga á landinu.
Guðbrandur Einarsson frá Beinni leið sagði stöðuna skelfilega. Fjárþörf næstu þriggja ára umfram tekjur væri 2,5 milljarður króna. „Þetta er hinn kaldi veruleiki og við getum ekki tekið lán. Við höfum ekki lánstraust lengur. Ég er í þeirri stöðu að hreinsa upp skítinn en ég ætla samt að taka það að mér,“ sagði Guðbrandur.
Bæjarfulltrúar sjálfstæðismanna voru hissa á hörðum viðbrögðum nýja meirihlutans við bókuninni og sögðust vilja gott samstarf um þetta stóra verkefni, að vinna á fjárhagsvanda sveitarfélagsins. Þeir lögðu áherslu á að um leið og staðan myndi lagast yrðu ákvarðanir um launaskerðingar og skattahækkanir teknar til baka. Undir það tóku fulltrúar meirihlutans.
Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar í ræðustól á bæjarstjórnarfundinum. VF-mynd/pket.