Eru Gunnhildur og Gerður ekki betri en 13-14 ára unglingar?
„Hæstvirtur forseti. Það stendur í frumvarpinu að það muni aldrei koma til þess að yngri en 18 ára afgreiði vín. En ég velti þá fyrir mér, af því að verslunin í landinu er alltaf að reyna að ná niður kostnaði og græða meira, að t.d. í mínum heimabæ, Grindavík, er meðalaldur þeirra sem eru að afgreiða á kassa 13 og 14 ára, og starfsmannaveltan er gríðarleg,“ sagði grindvíski þingmaðurinn Páll Valur Björnsson, Bjartri framtíð, í andsvari í umræðu um áfengisfrumvarpið á Alþingi í gær.
Páll Valur velti líka fyrir sér hvort Nettó í Grindavík yrði tilbúið að fara að stækka húsnæði sitt til þess að vera með áfengi. „Ég veit það ekki. Ég held að þetta yrði gríðarlegt vandamál. Nú þegar starfa 350 manns við þetta og starfsmenn ÁTVR á Íslandi eru mjög ánægðir. Í Grindavík erum við með ÁTVR nánast við hliðina á búðinni. Þar starfa ósköp glaðlyndar og skemmtilegar konur, Gunnhildur og Gerður, og þær hafa miklar áhyggjur af þessu. Þetta hefur sett starf þeirra í mikið uppnám. Ég held að það myndi verða mjög erfitt fyrir verslunareigendur að hafa eftirlit með þessu.“