Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eru fiskverkendur umhverfissóðar?
Föstudagur 22. ágúst 2003 kl. 14:40

Eru fiskverkendur umhverfissóðar?

„Ekki ætla ég nú að ganga svo langt að svara þeirri spurningu játandi án nokkurs fyrirvara. En víst er að á meðal þeirra eru svartir sauðir sem ekki kunna skil á lögum og reglum lýðveldisins og þaðan af síður kunna þeir að bera virðingu fyrir þeirri auðlind sem þeir eiga allt sitt undir.” Sagði Tómas J. Knútsson í viðtali við Víkurfréttir sem tekið var í kjölfar þess að upplýst varð með myndum að fiskverkendur hefðu hent ómældu magni af úrgangi í sjóinn við bryggjuendann í Garði.
Við bryggjusporð í Garðinum er að finna paradís fyrir kafara. Lífríkið er þar fjölskrúðugt og margt fallegt er þar að sjá. En stöku sinnum hendir það að þegar niður er komið blasir ekki við hið ósnortna umhverfi með sínum töfrum heldur ómælt magn af úrgangi frá fiskverkendum s.s. hausar, hryggir, og afbeita með sínum krókum og snærum. Allir ættu að vita að sú tíð er liðin að úrgangi sé kastað í sjóinn. Fiskverkendur eiga að bera virðingu fyrir þeirri auðlind sem sjórinn er og nýta hráefnið til fullnustu. Hér á Suðurnesjum er fyrir hendi farsæll farvegur fyrir fiskúrgang þar sem úr honum er unnið refafóður. Sú verkun gerir þó þær kröfur til hráefnisins að það sé kælt eða ísað þannig að ferskleiki þess glatist ekki. Í stað þess að brasa við ólöglegt athæfi gætu þessir aðilar nýtt þetta hráefni!

Blái herinn hefur upplýsingar um hvaða fiskverkendur eru ábyrgir fyrir þeirri losun sem sýnd er á meðfylgjandi myndum. Þeim aðilum verður þó sýnd óverðskulduð tillitssemi, að þessu sinni, og verða nöfn fyrirtækjanna ekki birt á þessum vettvangi. Hinsvegar munum við gera þar til bærum yfirvöldum grein fyrir því hverjir eiga hér hlut að máli. Það er deginum ljósara að förgun á úrgangi með þessum hætti getur ekki samræmst þeim kröfum sem gerðar eru í starfsleyfum. Yfirvöld eiga tól og tæki sem tíunduð eru í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að taka á málum sem þessum. Útgefendur starfsleyfa geta gengið svo langt að svipta þessa sóða starfsleyfi ef um ítrekuð brot er að ræða.
„Fyrir nokkrum árum stóðum við fyrir umfangsmikilli neðansjávar hreinsun við bryggjuna í Garðinum. Þá voru tekin upp 10 tonn af ýmiskonar rusli m.a. eitt bílflak, tugir rafgeyma ofl. Tilgangurinn með því átaki var að koma köfunarparadísinni okkar í upprunalegt horf og vekja athygli á slælegri umgengi við auðlindina. Svo virðist sem ónefndir aðilar hafi ekki skilið þennan tilgang.” Sagði Tómas J. Knútsson að lokum.

Ljósmynd/Tómas J. Knútsson: Ómælt magn af fiskúrgangi frá fiskverkendum í garðinum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024