Eru afskipti hermanna af ljósmyndurum Víkurfrétta eðlileg?
Reglurnar um myndatöku utan girðingar á varnarsvæði bandaríska hersins virðast vera óskýrar. Innan girðingar varnarsvæðisins gilda hinsvegar strangar reglur varðandi myndatöku og þarf sérstakt leyfi frá almannatengslaskrifstofu varnarliðsins varðandi myndatökur. Í fjórgang hafa vopnaðir hermenn eða herlögreglumenn varnarliðsins haft afskipti af ljósmyndurum Víkurfrétta þar sem þeir hafa verið að taka fréttamyndir á Suðurnesjum á síðustu tveimur mánuðum. Í tveimur tilfellanna hafa hermennirnir reynt að fá ljósmyndara blaðsins til að eyða ljósmyndunum sem teknar hafa verið og í einu tilfelli var þess krafist að stafrænt myndkort yrði afhent hermönnum.
Afskipti #1
Um miðjan maí gerðu vopnaðir hermenn athugasemdir við störf ljósmyndara Víkurfrétta þar sem myndaðir voru hermenn sem stóðu vörð við kirkjugarð Keflavíkur við Garðveg. Íbúi í Reykjanesbæ kallaði til lögreglunnar þar sem honum þótti óeðlilegt að vopnaðir hermenn stæðu vörð utan varnarsvæðis við kirkjugarðinn. Hermennirnir gáfu þá skýringu á veru sinni að verið væri að afferma bensínflutningaskip í Helguvík. Ljósmyndari Víkurfrétta stóð í vegarkanti Garðvegar og myndaði þegar hermenn komu á svæðið en þeir gerðu athugasemdir við störf ljósmyndara.
Sama dag gerði hermaður athugasemdir við störf ljósmyndara Víkurfrétta sem staddur var í Helguvík að mynda bensínflutningaskipið og vopnaða hermenn sem þar stóðu vörð. Ljósmyndarinn framvísaði skírteini blaðamanna og fékk að starfa óáreittur í framhaldi af því.
Afskipti #3
Þriðja atvikið átti sér stað fyrir um tveimur vikum þegar ljósmyndari Víkurfrétta myndaði afskipti íslenskra lögreglumanna af tveimur unglingum sem voru við girðingu varnarsvæðisins fyrir ofan Grænás. Vopnaðir hermenn komu á staðinn og gerðu athugasemdir við störf ljósmyndara og meinuðu honum að beina myndavélinni að varnarsvæðinu.
Afskipti #4
Á þriðjudag gerðu svo vopnaðir herlögreglumenn athugasemdir við störf ljósmyndara Víkurfrétta þar sem hann var við fréttamyndatöku fyrir utan girðingu Patterson flugvallar. Alls komu sjö lögreglubílar á svæðið að meðtöldum íslenskum lögreglubílum og var ljósmyndarinn stöðvaður í tæpa klukkustund. Var hann meðal annars krafinn um að afhenda stafrænt myndakort og að eyða ljósmyndum að hermönnum viðstöddum. Ljósmyndarinn fékk að fara ferða sinna eftir nokkurt þóf og samskipti hermannanna við yfirmenn sína.
Afskipti #5
Síðar um daginn gerðu íslenskir lögreglumenn af Keflavíkurflugvelli athugasemdir við störf frétta- og kvikmyndatökumanns sjónvarpsins þar sem þeir unnu frétt um afskipti hermanna af störfum ljósmyndara Víkurfrétta. Voru þeir þá staddir við hlið Patterson flugvallar, en íslensku lögreglumennirnir voru kallaðir á staðinn að beiðni herlögreglunnar.
Varnarsvæði bandaríska hersins á Suðurnesjum er ekki allt girt af. Nokkuð stór hluti svæðisins er utan girðingar. Sú spurning hlýtur að vakna hvort hermönnum varnarliðsins sé heimilt að meina ljósmyndurum að taka fréttamyndir á svæði sem er utan girðingar. Í öllum tilfellunum voru ljósmyndarar Víkurfrétta að taka fréttamyndir, þ.e. af atburðum sem skilgreindir voru sem fréttir. Einu reglurnar sem blaða- og fréttamenn fara eftir við fréttamyndatöku eru að taka ekki myndir inni á heimilum manna eða einkasvæði. Á opinberum vettvangi, víðavangi og á stöðum sem venjulega eru taldir til opinberra staða getur hinsvegar enginn bannað fréttaljósmyndara að taka myndir. Ef einhver atburður á sér stað á slíkum stöðum sem kallast getur frétt, er ekkert sem segir til um það að ekki megi ljósmynda atburðinn. Svæði varnarliðsins sem er utan girðingar hlýtur að teljast opinber vettvangur. Þar sem almenningur getur gengið um hlýtur að teljast opinbert svæði; jafnvel þó slíkt svæði sé skilgreint sem varnarsvæði utan girðingar. Margir velta því fyrir sér af hverju svæðið sé ekki girt af ef yfirmenn varnarliðsins vilja ekki að ljósmyndað sé á svæðinu.
Óljós skilaboð eða reglur
Í öllum þeim tilvikum sem hermenn varnarliðsins hafa haft afskipti af ljósmyndurum Víkurfrétta þar sem þeir hafa verið við fréttamyndatöku hafa þeir fengið fyrirmæli um að stöðva ekki ljósmyndara. Það hlýtur að teljast einkennilegt í ljósi þess að hermennirnir hafa ávallt í byrjun haldið því fram að myndunum eigi að eyða. Skilaboðin eða reglurnar sem hermennirnir halda að þeir séu að framfylgja hafa þá ekki átt við rök að styðjast. Óþolandi framkoma Róbert Marshall formaður Blaðamannafélags Íslands segir afskipti hermanna varnarliðsins af ljósmyndurum Víkurfrétta óþolandi og að slík framkoma líðist ekki. Hann segir það geta verið að í Bandaríkjunum séu lög sem heimili hermönnum að meina fréttaljósmyndurum myndatöku á einhverjum svæðum en hér á Íslandi sé það ekki heimilt. Róbert segist ekki vita betur en að fyrir utan girðingu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli gildi Íslensk lög.
Eðlilegur núningur
Jóhann R. Benediktsson sýslumaður á Keflavíkurflugvelli segir að uppákomur sem þessar séu almennt ekki vandamál. Jóhann segir að ekki megi gleyma því að í sumum tilfellum geti verið að herlögreglumenn þekki ekki reglurnar. Af þeirri einföldu ástæðu segir Jóhann að samskipti sem þessi eigi að fara í gegnum íslensku lögregluna á Keflavíkurflugvelli. „Það er okkar hlutverk að greiða úr svona málum sem má kannski segja að séu að sumu leyti eðlileg. Herlögreglumennirnir eru vanir öðrum reglum og öðru umhverfi. Þó að þeir séu vel fræddir um slík mál þá má kannski segja að svona uppákomur séu eðlilegur núningur þegar tveir menningarheimar mætast. Það er mjög algengt að við séum að leysa svona núningsfleti,“ segir Jóhann og hann hvetur fréttadeildir til að hafa samband við embætti Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli ef myndataka er fyrirhuguð á varnarsvæðinu. „Í langflestum tilfellum er það mjög auðsótt mál að taka ljósmyndir á þessu svæði.“
Furðulegar uppákomur
Einar Falur Ingólfsson myndstjóri Morgunblaðsins segir reglurnar sem fréttaljósmyndarar fara eftir séu þær að friðhelgina þurfi að virða á einkasvæði og að þar sé ekki myndað nema leyfi sé fengið. Hann segir einkasvæði geta verið heimili fólks eða svæði sem er í einkaeigu. „Það er litið þannig á að þeir sem eru á ferð um almenningssvæði séu á opinberu svæði og það megi birta myndir af þeim. Svo er það gráa svæðið þar sem menn velta fyrir sér hvar einkasvæði byrjar, þ.e. ef menn eru á einkasvæði en blasa við af almenningssvæðinu. Til dæmis ef þú stendur út í glugga á heimili þínu en blasir við af almenningssvæðinu þá ertu sýnilegur og getur lent inni á mynd.“ Einar segist hinsvegar alltaf hafa talið svæðið utan girðingar varnarsvæðisins opinbert svæði. „Mér þykja þetta ákaflega furðulegar uppákomur þar sem hermenn reyna að stöðva ljósmyndara við myndatöku utan girðingar.“
Aukinn viðbúnaður
„Það sem gerðist á þriðjudag og það sem hefur gerst síðustu misseri varðandi samskipti hermanna og ljósmyndara Víkurfrétta er vegna aukins viðbúnaðar á varnarstöðinni vegna árásanna á bandaríkin í september 2001,“ segir Chris Usselman yfirmaður almannatengslaskrifstofu varnarliðsins. Spurður um hvaða reglur væru í gildi hjá varnarliðinu um myndatöku á varnarsvæðinu sagði Chris að verið væri að endurskoða allar reglur á varnarstöðinni. Það sem setti þá atburðarrás af stað sem hófst á þriðjudaginn var þegar fólk sást við girðingu Patterson flugvallar. „Á meðan þú ert á almenningsvegi þá máttu mynda það sem þú vilt frá þeim vegi. Það er ekki algengt að svo margir lögreglubílar fari á vettvang svona mála eins og gerðist á þriðjudaginn. En hermennirnir voru í sambandi við sína yfirmenn sem gáfu þeim skipanir um að yfirgefa staðinn að lokum. En það er alls ekki viðtekin venja að senda svo marga lögreglubíla á vettvang eins og þarna varð raunin.“
Óttast hryðjuverk
Chris segir að Ísland sé frábært land og að hermönnunum sem hér eru líki mjög vel á Íslandi. „Eftir 11. september eru hermenn á herstöðvum bandaríkjamanna um allan heim mjög viðkvæmir fyrir grunsamlegum ferðum manna utan stöðvanna og þá sérstaklega þegar ljósmyndir eru teknar. Við lítum svo á að þegar ljósmyndir eru teknar í nágrenni varnarstöðva þá gæti viðkomandi verið að safna upplýsingum fyrir hryðjuverkaárás. Með auknum viðbúnaði á varnarstöðinni og í nágrenni hennar erum við að gæta öryggis okkar og íbúa svæðisins vegna hugsanlegra hryðjuverka. Okkar hlutverk er að gæta öryggis Íslendinga jafnvel og okkar sjálfra á varnarstöðinni.“ Aðspurður hvort hermönnum væru uppálagt að óska eftir filmum eða stafrænum myndakortum þegar þeir hafa afskipti af ljósmyndurum sagði Chris svo ekki vera. „Ég tel að um misskilning hafi verið að ræða í þessu tilviki. Við vinnum að því að fræða hermenn okkar um þær reglur sem gilda hér á Íslandi og við viljum ekkert annað en að eiga góð samskipti við fjölmiðlamenn.“