Eru að gera heimildarmynd um nýjan veruleika Grindvíkinga
Stefna á að ljúka tökum á næstu tveimur vikum
Þýskt kvikmyndagerðarfólk er statt á Íslandi, n.t. í Grindavík og er að vinna að heimildamynd um nýjan veruleika Grindvíkinga og kannski helst hvað muni gerast þegar Grindvíkingar snúa til síns heima. Heiko Heltorff hefur oft komið til Íslands á undanförnum árum en hann vinnur líka fyrir sér sem ferðaleiðsögumaður. Juliette Planitzer hefur komið í nokkur skipti en þau komu til Íslands síðasta föstudag og hyggjast dvelja í tuttugu daga. Þau eru að vinna að þessari heimildarmynd fyrir ARTE sjónvarpsstöðina og vonast til að geta lokið tökum áður en þau fara en munu annars koma aftur í febrúar.
Þau hafa verið að mynda mikið að undanförnu, t.d. varnargarðana sem eru að rísa fyrir utan Grindavík og eru að finna áhugaverða viðmælendur í myndinni. Það eru tíu ár síðan Heiko tók ástfóstri við Ísland. „Ég hef verið að koma reglulega til Íslands undanfarin tíu ár því áhugamál mitt og aukavinna, er ferðaleiðsögn, mest í Grænlandi en ég kem oft til Íslands vegna þess. Mín aðalvinna er samt heimildakvikmyndagerð og þess vegna þarf ég alltaf að hafa augun opin fyrir áhugaverðu efni. Við komum fyrir tveimur árum og gerðum heimildamynd um áhrif eldgosanna á ferðamennsku í Grindavík. Þá kynntumst við fullt af áhugaverðu fólki og einn aðalkarakterinn í þeirri mynd var Issi sem er með fish & chips, hann var með vagninn sinn á bílastæðinu við fyrstu eldgosin. Hann kynnti okkur svo fyrir fólkinu hér í Grindavík, m.a. félögunum á Papas pizza og starfsfólkinu þar. Við skoðuðum líka hvalaskoðunarferðirnar t.d. og úr varð mjög skemmtileg heimildarmynd. Við vissum að það ætti eitthvað fleira eftir að gerast og höfum því verið með puttann á púlsinum í Grindavík í talsverðan tíma,“ segir Heiko.
Heiko og Juliette fréttu af rýmingunni og drifu sig strax til Íslands og dvöldu í nokkra daga og komu svo aftur á föstudaginn. Juliette tók við boltanum. „Við höfum haldið okkur til hlés, þetta er búið að vera nógu erfitt fyrir Grindvíkinga að þurfa yfirgefa heimilin sín og þess vegna höfum við verið íhuga vel hvernig við viljum segja söguna. Um leið og Grindvíkingum var hleypt aftur inn í bæinn til að búa fórum við af stað og erum komin með nokkra áhugaverða einstaklinga til að tala við. Hvernig var að þurfa yfirgefa heimilið sitt, af hverju vill fólkið flytja aftur og hvernig telur það að lífið í Grindavík verði í framtíðinni, þetta er mjög áhugavert að okkar mati og við hlökkum mikið til að sjá útkomuna. Við munum mynda á fullu þar til við förum og vonumst til að geta klárað tökur en mér finnst líklegt að við þurfum að koma aftur en þetta snýst líka um hvort og hvenær fari að gjósa. Okkur finnst áhugavert að hlusta á Grindvíkinga tala um eldfjallafræðingana, einn segir þetta og annar segir hitt. Kannski er það samt fréttamönnunum að kenna, þeir spyrja þennan eldfjallafræðing um þetta en spyrja svo annað einhverrar annarrar spurningar og þá koma tvö ólík svör. Þetta er allt saman mjög áhugavert og við gerum ráð fyrir að koma aftur í febrúar,“ sagði Juliette að lokum.