Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Erling með góðan ufsaafla
Laugardagur 7. mars 2009 kl. 11:47

Erling með góðan ufsaafla

– góð veiði víða í blíðunni og hásetahluturinn yfir milljón á mánuði



Erling KE 14 kom til Grindavíkurhafnar síðdegis í gær með á þriðja tug tonn af vænum ufsa. „Þetta hefur gengið vel í vetur, gott veður og fínn afli en við höfum nær eingöngu verið í ufsa eftir áramót,“ sagði Hafþór Þórðarson, skipsstjóri, þegar tíðindamenn Víkurfrétta hittu Erlingsmenn við löndun í Grindavík.

Það var gott hljóð í strákunum í lönduninni enda hefur veiðin gengið vel og kaupið gott í kreppunni. Hásetarnir á Erllingi hafa verið með yfir milljón á mánuði í janúar og febrúar þó þeir hafi verið að veiða ufsa sem hefur ekki alltaf verið efstur á vinsældalistanum. Hann hefur nefnilega verið mun verðminni en sá guli en Erlingsmenn veiddu þorskinn í haust og til jóla. Vegna verðfalls á honum hefur ufsinn verið fyrir valinu því hann hefur haldið verðgildi sínu á meðan sá guli hefur hríðfallið í verð í heimskreppunni. Áður var ufsinn um 30% af verði þorsks en nú hefur sá munur minnkað mikið og munar nú aðeins um helming á þessum tegundum.
„Þetta er góður hópur og það er fín stemmning og samstaða um borð. Við heyrum ekki allar leiðinlegu fréttirnar úti á sjó og það er bara fínt. Það hefur oft verið gott að vera sjómaður, ekki síður núna,“ sögðu strákarnir sem voru hinir hressustu í lönduninni í Grindavík.

Víkurfréttamenn voru líka með sjónvarpsvélina við löndunina og við sýnum innslag frá lönduninni og viðtal við Hafþór skipsstjóra í sjónvarpsþætti VF á ÍNN næsta fimmtudag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fleiri bátar komu til hafnar í Grindavík í gær í blíðunni.

Vænn ufsaafli. Erling var með um 30 tonn, um sjötíu svona kör, full af vænum ufsa.

Þeir voru hressir skipverjarnir á Erlingi í gær enda kaupið gott í kreppunni.

Hafþór skipper í brúnni, sæll og glaður með sína menn sem gera það gott þessa dagana.

Það var góð stemmning í höfninni í blíðunni, bátar að koma og fara.

VF-myndir/pket.