Erlendir vísindamenn á Suðurnesjum
Mikið um að vera í Þekkingarsetri Suðurnesja
Mikið er um að vera í Þekkingarsetri Suðurnesja þessa dagana en þar dvelja nú 14 vísindamenn frá Þýskalandi, Bandaríkjunum og Noregi við rannsóknir. Vinna þeirra í setrinu er hluti af stóru og alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem kallast IceAGE og kemur í kjölfar tveggja vikna leiðangurs á þýska rannsóknaskipinu Poseidon. Sú sjóferð var annar leiðangur verkefnisins, en sá fyrri var farinn á þýska skipinu Meteor í september 2011. Þá var með í för einn af starfsmönnum Botndýrarannsóknastöðvarinnar sem var staðsett í húsnæði Þekkingarsetursins, Sigrún Hjördís Haraldsdóttir. Íslenskir vísindamenn voru meðal þátttakenda í leiðangrinum sem nú var farinn.
Markmið leiðangursins var að kanna botndýralíf á Íslands-Færeyjahryggnum og á hafsvæðinu sunnan og austan Færeyja. Sérstök áhersla var lögð á að rannsaka erfðafræði og vistfræði botndýranna. Að leiðangri loknum voru flest sýnanna sem safnað hafði verið, flutt í Þekkingarsetrið þar sem þau eru rannsökuð af leiðangursmönnum og fleiri fræðimönnum.
Að sögn leiðangursmanna var rannsóknaleiðangurinn mjög vel heppnaður og sýnin sem náðust forvitnileg. Þau munu gagnast vel við að kanna erfðafræði fjölmargra botndýrategunda. Vísindamennirnir voru ánægðir með rannsóknaaðstöðuna í Þekkingarsetrinu, en hún hefur að talsverðu leyti verið byggð upp af Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum og Náttúrustofu Suðvesturlands sem eru hluti af setrinu.