Erill hjá lögreglu og þjófar á ferð!
Nokkuð erilsamt hefur verið hjá lögreglunni í Keflavík um helgina. Næturvaktirnar hafa haft í nógu að snúast í tengslum við skemmtanahald á Suðurnesjum en skemmtistaðirnir voru vel sóttir þessa helgina. Þá hafa þjófar einnig verið á ferðinni og hafa lögreglumenn fengið tilkynningar í morgunsárið um innbrot og skemmdarverk á bílum.Brotist var inn í bifreið við Hólmgarð síðustu nótt og úr henni stolið myndavél og hljómdiskum. Þá var farið inn í gröfur, bæði í malarnámum í Stapafelli og einnig í Keflavík og hljómtækjum og fjarskiptabúnaði stolið. Þessi innbrot eru ennþá óupplýst og þeir sem upplýsingar geta gefið eru hvattir til að hafa samband við lögregluna í Keflavík.