Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 17. júlí 2001 kl. 10:55

Erfitt að ná sambandi við lögregluna í Keflavík

„Bætt þjónusta við íbúa á Suðurnesjum“, segir Ásgeir Eiríksson fulltrúi sýslumanns

Nokkuð hefur borið á óánægju íbúa á Suðurnesjum vegna breytinga á símsvörun hjá lögreglunni í Keflavík. Þeir sem vilja ná sambandi við lögreglu geta fengið samband í gegnum skiptiborð hjá Sýslumannsembættinu í Keflavík en utan opnunartíma er fólki uppálagt að hringja í Neyðarlínuna 112. Slíkt fyrirkomulag tíðkast einnig í Kópavogi en annars staðar getur fólk hringt beint á lögreglustöðina. Fulltrúi sýslumanns segir þessa breytingu vera af hinu góða og sé í raun betri þjónusta en áður þar sem fólk geti nú nálgast allar upplýsingar á sama stað. Auk þess þá dragi þetta úr álagi á varðstofu lögregulstöðvarinnar þannig að meiri tími gefst til að sinna almennum löggæslustörfum.

Þarf virkilega einhver að drepast?
Íbúi í Reykjanesbæ hafði samband við VF og sagðist hafa hringt í gamla númerið á lögreglustöðinni, þ.e. 421-3333, fyrir skömmu síðan. Þá svaraði símsvari og viðkomanda var bent á að hringja í Neyðarlínuna 112. „Ég skýrði mál mitt fyrir manni sem taldi málið ekki alvarlegt og fékk samband við Fjarskiptamiðstöð lögreglu. Þá útskýrði ég sama mál fyrir öðrum aðila sem taldi það heldur ekki alvarlegt. Eftir að hafa útskýrt mitt mál fyrir tveimur mönnum fékk ekki samband við lögregluna í Keflavík eftir allt saman. Maðurinn hjá fjarskiptamiðstöðinni tjáði mér að þetta væru bein tilmæli frá sýslumanninum í Keflavík. Ég gat sætt mig við að fá ekki samband við lögreglu í þetta skipti en ég er mjög ósátt við að geta ekki náð í lögregluna þegar ég þarf þess. Þarf virkilega einhver að drepast að stórslys að verða til að hinn almenni borgari fái að tala við lögreglu“, segir íbúinn og beinir orðum sínum til yfirstjórnar lögreglumála á svæðinu.

Hvers eiga almennir borgarar að gjalda?
Sami aðili þurfti að ná í lögreglu vegna alls óskylds máls í síðustu viku, og hringdi í síma 420-2400, sem er skiptiborð hjá sýslumanni. „Ég hringdi kl. rúmlega eitt eftir hádegi og fékk þá samband við símsvara. Röddin á símsvaranum vísaði mér á heimasíðu lögreglunnar til að fá nánari upplýsingar, þ.e. www.logreglan.is. Ég á ekki tölvu og ég veit að það eru ekki til tölvur á ölllum heimilum. Auk þess þá er umdæmi lögreglunnar í Keflavík mjög stórt og ekki allir sem eru í göngufæri við lögreglustöðina eða með bíl. Í þessu tilfelli var ég t.d. bíllaus og bý þar að auki langt í burtu þannig að ég varð að bíða þar til eftir kl. 17 til að komast á lögreglustöðina og tala við lögreglu um mitt mál, þar sem ekki var vinnandi vegur að ná sambandi við stöðina. Hvers eiga almennir borgarar að gjalda? Mér finnst að hinn almenni borgari eigi að geta náð í lögreglu þegar á þarf að halda. Við borgum okkar skatta og ef mannekla er hjá lögreglunni, þá á bara að bæta við einum manni á símann. Svo einfalt er það!“

Eigum ekki að misnota 112
Blaðamaður VF kannaði málið og fékk þær upplýsingar hjá símaskránni 118, að starfsstúlkur þar hefðu fengið þau fyrirmæli að gefa upp númerið 420-2400 á opnunartíma skrifstofu sýslumanns sem er frá kl. 9-12 og 13-16 alla virka daga, annars ætti fólk að hringja í Neyðarlínuna.
Starfsstúlka 118 sagði að fólk væri mjög óhresst með að fá aðeins uppgefið númer Neyðarlínunnar og þverneitaði oft að hringja í það númer þar sem ekki væri endilega um neyðartifelli að ræða. „Þetta er alveg ómögulegt að fólk geti ekki hringt beint á lögreglustöðina eftir lokun skiptiborðs hjá sýslumanni og okkur finnst alveg hrikalegt að geta bara gefið upp númer Neyðarlínunnar. Mér finnst að ekki eigi að misnota það númer og ég ætla að vona að þeir í Keflavík breyti þessu sem fyrst“, sagði starfsstúlka 118 í samtali við VF.
Þess má geta að upplýsingar um bein símanúmer til lögreglufulltrúa og rannsóknarlögreglumanna er að finna á www.simaskra.is undir Lögreglan í Keflavík, en eins og fyrr segir þá eiga ekki allir þess kost að fara á Netið.

Bætt þjónusta embættisins
Að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, sýslumannsfulltrúa í Keflavík, gerði lögreglan samninga við Neyðarlínu og Fjarskiptamiðstöð lögreglu síðastliðið sumar en þá voru öll símtöl í neyðarnúmer lögreglu framsend til Neyðarlínunnar. Neyðarlínan vinnur síðan upplýsingar úr símtalinu og framsendir það eftir atvikum til Fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar. Ef um neyðarsamtal er að ræða getur Fjarskiptamiðstöðin séð á skjá hvar næsta lögreglubifreið er staðsett og sent hana á staðinn.
„Þetta er mun fullkomnari neyðarþjónusta en tíðkast hefur hingað til. Ef erindið getur beðið þar til skiptiborð opnar, er fólki bent á að hringja í síma 420-2400“, segir Ásgeir. Hann bætir við að markmið þessara breytinga á símsvörun sé að bæta þjónustu embættisins þannig að hægt verði að hringja á einn stað og fá upplýsingar og samband við alla starfsmenn sýslumannsins í Keflavík. „Það var ekki hægt í gamla kerfinu. Þá á breytingin að verða til þess að álag á lögregluvarðstofu minnkar og varðstjóri mun hafa meiri tíma til að huga að stjórnun almennra lögreglumanna.“

Ekki hringja að nauðsynjalausu
Á einum sólarhring berast um 100 símtöl til varðstofu lögreglu og eðli málsins samkvæmt berast þau flest á skrifstofutíma. Fólk vill ná sambandi við rannsóknarlögreglumenn, yfirlögregluþjóna o.s.frv. t.d. vegna rannsóknar mála, umsókna um leyfi, fyrirspurna um sektir o.fl. Að sögn Ásgeirs fóru þessi símtöl oftar en ekki um skiptiborð á varðstofu að nauðsynjalausu þrátt fyrir að bein símanúmer lögreglumanna séu auglýst í símaskrá. Markmið breytinganna er að færa þessa símsvörun til sýslumanns.
„Þegar stórir atburðir verða, t.d. ófærð á Reykjanessbraut eða stórslys, stóreykst fjöldi símtala til lögreglu. Skráð símtöl einn dag í febrúar í fyrra vegna ófærðar á Reykjanesbraut voru um 800. Varðstjóri getur ekki sinnt þessu einn ásamt því að stjórna lögreglumönnum og er fólk vinsamlegast beðið að sýna tillitssemi við þessar aðstæður og hringja ekki að nauðsynjalausu í lögreglu. Eðlilegra er að upplýsingar um færð komi frá Vegagerðinni eða fjölmiðlum“, segir Ásgeir og bendir fólki á símsvara lögreglu þar sem almenningur getur nálgast upplýsingar um færð, stóra jarðskjálfta sem finnast á svæðinu, viðvörun vegna veðurs og fleira, upplýsingasíminn er 420-2494.
Almennur sími sýslumanns og lögreglu verður sem sagt 420-2400 og svarað er í hann á skrifstofutíma á virkum dögum frá kl. 9-12 og frá kl. 13-16. Ef um neyðarsímtal er að ræða eða fólk telur sig eiga brýnt erindi við lögreglu sem ekki getur beðið þar til skrifstofa sýslumanns opnar, ætti það að hringja í Neyðarlínuna 112 og fá þannig samband við lögregluna. Upplýsingar um bein símanúmer starfsmanna sýslumanns og lögreglu má finna á vefsetri sýslumanns www.syslumadurinn.is, og netsímaskránni www.simaskra.is og víðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024