Erfitt að fara af stað með framkvæmdir út í óvissuna
- segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, um áætlanir á uppbyggingu varnarvirkja á Reykjanesi í viðtali við Morgunblaðið.
„Uppbygging varnargarða er ekki aðeins flókið verkefni að ráðast í heldur einnig kostnaðarsamt,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur í Morgunblaðinu í morgun. Hann segir mikilvægt að undirbúa uppbyggingu varnargarða á Reykjanesi ef það kemur að gosi.
Samkvæmt Fannari er kostnaðurinn á bakvið einn varnargarð á bilinu 1-1,5 milljarðar króna. Þá telur hann að ekki verði ráðist í slíkar framkvæmdir fyrr en gos hefur hafist en að varnagrarðar myndu „klárlega vera af hinu góða.“ Fannar segir slík verkefni ekki vera einföld. „Hvar á að byrja og hvernig á að forgangsraða, það er ekki alveg einfalt. En við viljum gjarnan fá sem mestar og bestar varnir,“ segir hann.
Í grein Morgunblaðsins kemur Fannar einnig inn á það að Reykjanesskaginn sé víðfemur og eldstöðvakerfið bjóði varla upp á að byrja strax á uppbyggingu varnargarða. „Það eru ótalmargir möguleikar í stöðunni um það hvert hraunið kann að renna. Ef það ætti að loka fyrir alla þá möguleika, þá er allur skaginn undir,“ segir Fannar. Þá segir hann það undirbúning á uppbyggingu garðanna vera sett í forgang „Frekar er verið að reyna að undirbúa þessa uppbyggingu ef það kemur að gosi. Það þarf að eiga tækjalista og tengiliðalista við stórverktaka, til þess að geta brugðist skjótt við ef það þykir tímabært að reisa garðana,“ segir Fannar.