Erfiðleikar hjá United Silicon hafa áhrif á fjármögnun Thorsil
Almenni lífeyrissjóðurinn hefur ekki enn staðfest tæplega 350 milljón króna fjárfestingu í kísilverksmiðju Thorsil í Helguvík, þrátt fyrir að stjórn hafi samþykkt fjárveitinguna fyrir ári síðan. Frá þessu var greint í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins.
Verksmiðja Thorsil hefur um nokkurt skeið verið á teikniborðinu og mun rísa við hlið verksmiðju United Silicon, gangi áætlanir eftir. Framkvæmdastjóri sjóðsins sagði í samtali við Markaðinn að ýmsar forsendur hafi breyst, meðal annars hafi lífeyrissjóðir nú víðtækari fjárfestingarheimildir og komið hafi fram neikvæðar fréttir vegna verksmiðju United Silicon sem fyrir er í Helguvík. Starfsleyfi Thorsil var kært í mars síðastliðnum af Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands og íbúum í Reykjanesbæ.