Erfiðlega gengið að manna gosvaktir
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í fréttatilkynningu í morgun að erfiðlega gangi að manna gosvaktir á þessum árstíma. Lögreglumenn, björgunarsveitarmenn, landverðir og sjúkraflutningamenn eru á svæðinu í dag en gönguleiðum inn á svæðið verður lokað kl. 18.
Í dag er opið inn á svæðið frá Suðurstrandarvegi. Gönguleiðum inn á svæðið verður lokað kl. 18 í dag. Erfiðlega gekk að hafa stjórn á fólki í gærkvöldi og nú sem oft áður er það tiltölulega fámennur hópur sem skemmir fyrir öllum hinum. Það hefur framangreindar afleiðingar að loka þarf gönguleiðum tímanlega í stað þess að halda úti fjölmennum hópi viðbragðsaðila allan sólarhringinn við að eltast við einstaklinga með lélega dómgreind. Takmarkaður hópur viðbragðsaðila hefur ekki getu eða afl til að leiðbeina og gefa fólki fyrirmæli við þessar aðstæður.
Á landakorti lítur svæðið sakleysislega út en margir átta sig engan veginn á vegalengdum eða stærð svæðisins.
Vigdísarvallavegi verður lokað kl. 18 í dag eða á sama tíma og gönguleiðum er lokað. Er það gert af öryggisástæðum.
Gossvæðinu var lokað kl. 23:30 í gærkvöldi þar sem hópur fólks var ekki að fara að fyrirmælum lögreglu og björgunarsveita um að fara ekki inn á merkt hættusvæði. Gönguleiðum var því lokað niður við Suðurstrandarveg.
Áætlar lögregla að um 600 manns hafi verið á svæðinu seint í gærkvöldi, tuttugu björgunarsveitarmenn voru á vakt á svæðinu í gærkvöldi og fram á nótt og sex lögreglumenn voru þar við gæslustörf. Þegar mest var áætlar lögregla að um 600 manns hafi verið á svæðinu.
Eitthvað var um að aðstoða þyrfti einstaklinga sem höfðu örmagnast á göngu.
Sem fyrr þá gengur ekki í öllum tilfellum vel að biðja fólk um að halda sig utan hættusvæðis. Lögregla biðlar því til fólks um að haga sér í samræmi við fyrirmæli lögreglu og björgunarsveita og fara ekki inn á merkt hættusvæði.