Er verið að bíða eftir því að Patterson slái út Keflavíkurflugvöll?
-Tómas Knútsson hjá Bláa hernum ósáttur með mikið rusl á gömlu varnarsvæði
„Það fer ekkert á milli mála að svæðið á Patterson fer í sögubækurnar sem algjör ruslahaugur hérna á Reykjanesinu. Þetta fyrrum svæði Varnarliðsins hefur verið hreinsað a.m.k. 2-3 sinnum og í fyrsta skiptið árið 2008 var það Blái herinn sem fjarlægði yfir 30 tonn af alls kyns drasli sem farið var með í Kölku til förgunar. Svæðið fylltist af drasli strax og herinn fór og það opnaðist fyrir hinn almenna borgara,“ segir Tómas Knútsson hjá Bláa hernum sem er afar ósáttur með umganginn á svæðinu.
Núna stendur Blái herinn og Landvernd fyrir verkefninu www.hreinsumisland.is. „Við höfum við verið í ár að hvetja til hreinsunarverkefna í öllum sveitarfélögum landsins og skrá verkefnin á vefsíðuna hjá Landvernd. Í næsta mánuði er síðan alþjóðlegur hreinsunardagur á Jörðinni okkar og eru þátttakendur frá yfir 160 þjóðlöndum, m.a. Íslandi og er það okkur mikið kappsmál sem höldum utanum verkefnið að það verði landi og þjóð til sóma. Það er ekki góð auglýsing fyrir svæðið okkar að hér sé mesta draslið á víðavangi á öllu landinu og að það skuli vera svona mánuðum og árum saman. Fyrir nokkrum árum síðan fauk járnplata vegna slóðaskapar verktaka, frá gagnaverunum sem þá voru í byggingu á Fitjum í Njarðvík og endaði í rafmagnslínu og sló út öllu á skaganum, þar með talinn Keflavíkurflugvöll. Ég spyr, er verið að bíða eftir slíku atviki aftur. Brettið upp ermar þið sem ráðið yfir þessu svæði, hreinsið upp þennan ósóma sem fyllir nokkra gáma á svæðinu og gerið viðhlýtandi ráðstafanir svo að þetta fari ekki aftur í sama farið“.
Þessar myndir voru teknar á gamla Patterson flugvellinum 1. ágúst.