Er skólakerfið á Suðurnesjum lakara en annars staðar?
Frammistaða nemenda á Suðurnesjum í samræmdum prófum og Pisa könnun er almennt lökust í samanburði við aðra landshluta. Þetta er á meðal þess sem lesa má í stöðumatsskýrslu um Suðurnes sem lögð var fram á Þjóðfundi í FS á dögunum og unnin var af Expectus.
Í samræmdum könnunarprófum í 10. bekk er árangur nemenda á Suðurnesjum undir landsmeðaltali í þeim þremur námsgreinum sem gerð var könnun á 2009 og er lakastur í tveimur þeirra; stærðfræði og ensku. Nemendur á Suðurnesjum ná minni framförum milli mælinga í 7. og 10. bekk heldur en nemendur á landinu í heild árið 2009.
Í samræmdum prófum í 4. bekk var frammistaða nemenda á Suðurnesjum lökust í íslensku og stærðfræði á árinu 2009 en Vestfirðir voru með sömu niðurstöðu í stærðfræði.
Í samræmdu könnunarprófi í 7. bekk er frammistaða nemenda á Suðurnesjum lökust á landsvísu í íslensku og stærðfræði 2009.
Nemendur á Suðurnesjum ná minni framförum milli 4. og 7. bekkjar en nemendur almennt á landinu í heild. Í 15 ára PISA könnun eru nemendur á Suðurnesjum með lakasta árangurinn í lesskilningi, stærðfræði og náttúrufræði, en eru undir meðaltali í lesskilningi og náttúrufræði 2006. Athygli vekur að staðan versnar í öllum mælingum milli 2003 og 2006.
Lesskilningur 9 ára barna á Suðurnesjum er lakastur miðað við önnur svæði landsins.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslunni en rétt er að taka fram að hér er um heildarniðurstöður að ræða en ekki verið að leggja mat á einstaka skóla.
Skýringar ekki augljósar
-segir Eiríkur Hermannsson, fræðslustjóri.
Eiríkur Hermannsson, fræðslustjóri Reykjanesbæjar, segir þær staðreyndir sem koma fram í stöðumatsskýrslunni hafa legið fyrir lengi og ekki koma á óvart þeim sem fylgst hafi með skólamálum hér undanfarna áratugi. Hann segir skýringarnar ekki augljósar en þó megi benda á nokkur atriði sem gætu haft áhrif á stöðuna. Vart sé þó hægt að tala um einhlíta skýringu, til þess séu rannsóknir ekki nægar á íslenskum skólum og námsumhverfi íslenskra barna.
Skólarnir skipta máli
„Þegar litið er til þess sem vitað er um tengsl námsárangurs við ýmsa umhverfisþætti úr félagsfræðilegum rannsóknum virðist ýmislegt vinna gegn okkur hér á Suðurnesjum, s.s. að menntunarstig almennings er lægra en á viðmiðunarsvæðum, lágar meðaltekjur á svæðinu, atvinnuleysi meira og fleiri með örorkumat og/eða falla undir fötlunarviðmið. Allt eru þetta umhverfisþættir sem, a.m.k. í erlendum rannsóknum eru taldar vinna gegn væntingum til skóla, metnaði og þar af leiðandi námsárangri. Sumir hafa gengið svo langt að segja að áhrif heimilanna, áhugi þeirra og metnaður, vegi þyngst af öllum þáttum sem varða námsárangur. En þar með er ekki sagt að skólarnir skipti ekki máli. Þeir skipta svo sannarlega miklu máli og sýnt hefur verið fram á að þar sem forysta skólastjóra er öflug, sýn á skólastarf skýr og samvinna kennara og samstaða um stefnuna mikil, í slíkum skólum næst betri námsárangur og börnum líður betur. Ef þessir skólar ná góðri samvinnu við nærsamfélagið og heimilin verður árangurinn enn betri,“ segir Eiríkur.
Skólaumbætur mikilvægasta verkefnið
„Sem fræðslustjóri í Reykjanesbæ hef ég á undanförnum 14 árum tekið þátt í og átt frumkvæði að ýmsum verkefnum á sviði skólaumbóta hér á Suðurnesjum og margt hefur verið í gangi án minnar aðkomu. Sumt hefur gengið vel og annað miður. Ég vil minna á Lestrarmenningarverkefnið 2003-2006 sem dæmi um vel heppnað verkefni sem full ástæða er til að endurvekja. Við höfum fylgst grannt með líðan barna og viðhorfum þeirra og foreldra til skólastarfs auk þess að fylgjast með námsárangri. Niðurstöður kannana hafa skólarnir notað til að greina styrkleika sína og veikleika og byggt sínar umbótaáætlanir á þessum könnunum. Mér er því ágætlega kunnugt um það umbótastarf sem á sér stað innan skólanna á svæðinu og veit að skólastarf hefur verið hér í stöðugri framför og ýmislegt hefur komið fram með skýrum hætti í þessum mælingum. Þrátt fyrir það mælast Suðurnesin í heild með námsárangur „undir meðaltali“ sem fyrr og árangur einstakra skólanna sé óstöðugur og jafnvel sveiflukenndur á milli ára. Það segir okkur væntanlega það að umbætur hér hafi ekki borið nægilegan árangur eða náð fullri fótfestu innan skólanna en einnig það að skólastarf annars staðar á landinu hefur einnig verið í framför. Það er því ljóst að betur má ef duga skal,“ segir Eiríkur enn fremur.
Hann segir að af ofangreindu megi ljóst vera að skólaumbætur séu og verði samfélagslegt verkefni og trúlega mikilvægasta verkefni okkar Suðurnesjamanna næstu áratugina.
„Þar þurfum við að efla samstarf heimila og skóla, efla rannsóknir á skólastarfi og þar með mat á árangri skóla, efla umræðu og umbætur á kennslu og kennsluháttum, hækka menntunarstig almennings og atvinnustig og efla þjónustu við barnafólk og almenna velferð. Þetta kann að virðast stór pöntun en það er fátt einfalt í henni veröld og við verðum að leggja okkur enn frekar fram. Þar er enginn Suðurnesjamaður undanskilinn,“ segir Eiríkur.
Einungis verið að endurspegla afmarkaða þætti
-segir Brynja Árnadóttir,skólastjóri Myllubakkaskóla
Erfitt er að gefa viðhlítandi skýringu út frá þessum tölulegu upplýsingum sem endurspegla einungis afmarkaða þætti skólastarfsins. Þeir þættir sem almennt eru taldir hafa áhrif á gengi nemenda í skóla eru margvíslegir. Nefna má félagslegar aðstæður, flutning nemenda á milli skóla og búsetusvæða, viðhorf til skólans, menntunarstig foreldra og innflytjendur svo eitthvað sé nefnt.
Skólasamfélagið er annar þáttur sem meta þarf, skólastjórnendur, skólamenning, menntun kennara, samvinna starfsmanna skólans og samvinna og samskipti við foreldra.
Það er rétt að benda á að samræmd próf eru ekki tæmandi úttekt á gæðum skólastarfs. Ef gera á úttekt á því þarf að skoða og meta alla þá þætti sem snerta nemendur og hafa áhrif á frammistöðu þeirra og líðan. Ekki er nóg að einblína á mælingar á stökum námsþáttum heldur þarf að taka tillit til þess samfélags sem við búum í. Til þess að það megi takast þarf að efla rannsóknir, auka umræðu um skólamál og stuðla að jákvæðri afstöðu til skóla.