Er hægt að skilja við áfangastaðinn hreinni en þegar þú komst að honum?
Er hægt að skilja við áfangastaðinn hreinni en þegar þú komst að honum? Já, ekki spurning, er einróma svar þátttakenda á Kickoff fundi Clean Up Iceland, samstarfsverkefni AECO, Bláa Hersins, Gáru og Landhelgisgæslu Íslands sem fram fór í Reykjanesbæ á dögunum. Á fundinum komu hagaðilar saman og ræddu framgang verkefnisins.
„Meðlimir AECO hafa hreinsað fjörur á Svalbarða í yfir 20 ár með góðum árangri og byggja á þeirri reynslu í Clean up Iceland, ásamt því að styðja við hið frábæra starf sem Blái herinn hefur unnið í gegnum árin,“ segir Melissa Nacke, rekstrarstjóri hjá AECO.
Á Kickoff fundinum komu saman leiðangurskipafélög, Blái herinn, Umhverfisstofnun, Landhelgisgæslan og Gára ásamt öðrum hagaðilum frá svæðum sem hreinsa skal. Meðal annars sagði Sóley Bjarnadóttir fá vinnu Umhverfisstofnunar við OSPAR vöktun og staðla Evrópusambandsins í plastmengun og hvernig skrá má fjöruhreinsanir á nýjum vef Strandhreinsun Íslands sem fer í loftið á næstu misserum.
Hekla Jósepsdóttir frá Landhelgisgæslu Íslands (LHG) sagði ánægju ríkja með verkefnið og útskýrði hvernig LHG hyggist styðja við hreinsanir, ef áætlanir leyfa, en þau hafa aðstoðað við Hreinni Hornstrandir síðan 2014.
Við þurfum að endurhugsa rusl
Tómas J. Knútsson, stofnandi Bláa hersins, opnaði fundinn með því að líta yfir 28 ára feril sinn í baráttunni gegn plastmengun í sjó.
„Við þurfum að endurhugsa rusl og líta á það sem verðmæti í hringrásarhagkerfi,“ sagði Tómas er hann ræddi um viðhorf almennings við plastmengun í sjó.
„Hvert einasta rusl sem við fjarlægjum er sigur,“ segir Tudor Morgan, hjá Hurtigruten Expeditions. Hann leggur áherslu á að fræða farþega og mikilvægi þess að skrásetja hreinsanirnar til þess að safna gögnum og upplýsingum. Gögn eru sannanir, og sannanir geta upplýst ákvarðanir og stefnur.
„Hjá AECO trúum við á samvinnu og það gleður mig að sjá leiðangurskipin, opinberar stofnanir, landeigendur, hafnarstjóra og sjálfboðaliða sameina krafta sína. Meðlimir AECO þurfa að fylgja ströngum leiðbeingum er lúta að náttúru, samfélögum, dýralífi og fleiru. Þar að auki eru margir farþegar leiðangursskipana áhugasamir um sjálfbær ferðamál. Strandhreinsanir eru frábært tækifæri til að mynda tengsl milli heimafólks og farþega, þar sem verkefnið miðar einnig að því að skapa möguleika til að hittast í fjörunni og tína rusl saman, segir Frigg Jørgensen, framkvæmdastjóri hjá AECO.
Hvað er Clean Up Iceland?
Það er verkefni þar sem farþegar leiðangursskipa tína rusl í fjörum og leggja sitt af mörkum í baráttunni við plastmengun í hafi. Þar að auki leiðir verefnið saman heimafólk og farþega og skapar tækifæri til að kynnast í sameiginlegum fjöruhreinsunum. Hreinsanirnar fara einungis fram á svæðum þar sem leyfi hefur fengist hjá sveitastjórn, hafnarstjórn eða landeigendum.