Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 31. janúar 2002 kl. 00:27

Er allt á hausnum!

Undanfarna daga hafa komið fram fréttir í fjölmiðlum um skulda- og fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Framsetningin hefur verið með þeim hætti að íbúar hafa sem eðlilegt er hrokkið við og spurt "er sveitarfélagið mitt að fara á hausinn".Fulltrúar í "Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga" hafa verið að draga í land með fullyrðingar og telja að fjölmiðlar hafi rangtúlkað orð sín og segja málið, er ekki bara svart og hvítt. Ómaklegt er að nota ársreikninga 2000 til að meta stöðu ársins 2002.
Reykjanesbær hefur fengið fyrirspurn frá nefndinni, með hvaða hætti bæjaryfirvöld hyggist greiða niður skuldir sveitarfélagsins.
Nefndin fékk svar á síðasta ári sem hún var sátt með og mun fá svar nú. Ég vona að svarinu verði gert jafn hátt undir höfði og fyrirspurninni.

Eignir - skuldir
Skuldir Reykjanesbæjar eru vegna framkvæmda, en ekki vegna óvandaðrar meðferðar skattpeninga bæjarbúa.
Skuldastaðan er eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og eignastaðan einnig.
Spyrja má hvort ákvarðanir um að setja 2 milljarða króna í skólahúsnæði á svo stuttum tíma sem gert var hefði ekki átt að fresta og taka mörg ár, þannig að skólahúsnæði væri lítt breytt og skólar margsetnir. Einsetning ætti langt í land.
Spyrja má hvort stærsta verkefni í umhverfismálum, hreinsun Njarðvíkurfitja, Innri og Ytri Njarðvíkur af skólpmengun hefði ekki átt að sitja á hakanum. Í það verkefni hefur farið um 1/2 milljarður króna. Í mars n.k. verður dælustöð í Innri Njarðvík og hreinsi- og dælustöð í Ytri Njarðvík gangsettar, einnig á þá öllum skurðgreftri að vera lokið. Þar með hefur tekist að hreinsa eitt mengaðasta svæðið, Njarðvíkurfitjar. Í vor hefjast framkvæmdir á útivistarsvæði á Fitjum sem verður tvímælalaust hið glæsilegasta.

Ákvarðanataka
Bæjarfulltrúar meirihlutans tóku ákvarðanir í þessum tveimur málum jafnt og öllum öðrum. Hagsmunir bæjarfélagsins eru hafðir að leiðarljósi jafnt til skemmri eða lengri tíma litið. Hvort allir eru sammála stefnu meirihlutans er svo annað mál, þeir skýra þá sín sjónarmið.

Greiðslur
Það hefur alltaf legið fyrir að greiða þarf lánin og um leið að hægja á framkvæmdum á meðan. Árin 2002, 2003, 2004 og 2005 verða lán greidd niður af krafti.

árið 2002 kr. 585 milljónir
árið 2003 kr. 360 milljónir
árið 2004 kr. 350 milljónir
árið 2005 kr. 335 milljónir
samtals kr.1.630 milljónir

Hvernig er þetta hægt:
Á árinu 2002 er gert ráð fyrir rekstrarafgangi af bæjarsjóði að upphæð kr. 631 milljón. Þar að auki koma til greiðslur frá Varnarliðinu vegna fráveitumála, einnig eru greiðslur frá Hitaveitu Suðurnesja hf.
Samtals eru til ráðstöfunar til greiðslu lána, vaxta og framkvæmda um kr. 1.300 milljónir á árinu 2002.

Hitaveita Suðurnesja hf.
Við breytingar á rekstrarformi Hitaveitu Suðurnesja í hlutafélag koma nú til árlegar arðgreiðslur til eignaraðila. Þær arðgreiðslur renna til afborgana lána, einnig renna þær beint til útsvarsgreiðenda í formi lægri útsvarsprósentu.
Þá hafa verið gefin út hlutabréf til eignaraðila. Reykjanesbær á hlutabréf nr. 1 að upphæð kr. 3 milljarðar. Gengi bréfa í Hitaveitunni er áætlað í dag 2, þannig má meta verðmæti bréfsins kr. 6 milljarðar.

Staða
Þegar allt er skoðað og virt er Reykjanesbær vel rekið, traust sveitarfélag, með góða eignastöðu og ábyrga fjármálastjórn.
Að lokum vil ég bjóða þér lesandi góður að koma í heimsókn og ræða fjármál og stjórn Reykjanesbæjar, ef þú óskar. Ég er reiðubúinn til þess jafnt að degi sem kvöldi. Vinsamlegast hafðu samband við ritara bæjarstjóra hana Lísu og bókaðu tíma eða sendu mér tölvupóst á netfang [email protected]. Þú ert hjartanlega velkominn.


Ellert Eiríksson
Bæjarstjóri







Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024