Enn í lífshættu eftir slys á Krýsuvíkurvegi
Þjóðverji um fimmtugt, sem slasaðist í bílveltu á Krýsuvíkurvegi á laugardagskvöld, er enn talinn í lífshættu og er haldið sofandi í öndunarvél. Þetta kemur fram í frétt mbl.is.
Maðurinn ók bíl af gerðinni Mitsubishi L300 sem er frambyggður og fjórhjóladrifinn. Fjórir aðrir menn voru í bílnum og voru þeir einnig þýskir. Við veltuna kastaðist ökumaðurinn út úr bílnum. Bíllinn valt nokkrar veltur og hafnaði að hluta til ofan á manninum. Hann er grunaður um ölvun.
Mennirnir starfa sem iðnaðarmenn hér á landi. Þeir voru í grillveislu við Kleifarvatn fyrr um kvöldið. Talið er að ökumaður hafi misst stjórn á bílnum efst í brekkunni um Vatnsskarð. Bíllinn valt nokkrar veltur á veginum sem er malarvegur.
Málið er enn í rannsókn lögreglu
Af mbl.is
VF-mynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson