Enn finnst raki í Myllubakkaskóla
-
Ástandsskoða allt húsnæði bæjarins vegna raka og myglu.
-
Stjórnendur Njarðvíkurskóla vilja úttekt á húsnæði skólans.
Sagað var úr gólfplötu í kjallara D-álmu Myllubakkaskóla og er töluverður raki undir gólfinu. Þetta kemur fram í fundargerð byggingarnefndar frá 9. mars síðastliðnum. Þar kemur fram að saga þurfi gólfið upp, rakaverja og steypa nýja gólfplötu.
Á sama fundi var farið yfir tillögur hönnuða að utanhússklæðningu. Samþykkt var að halda áfram með hönnun miðað við framlagðar hugmyndir en boðað verður fljótlega til fundar með hönnuðum vegna utanhússklæðningar á Myllubakkaskóla.
Stjórnendur Njarðvíkurskóla hafa óskað eftir að gerð verði markviss úttekt og ástandsskoðun á byggingum skólans sem notuð verði til að forgangsraða viðhaldi og uppbyggingu. Tekin hafa verið fjöldi sýna á undanförnum árum og brugðist hefur verið við þar sem skemmdir hafa fundist og unnar endurbætur en viðhaldsþörf og vandamál eru enn til staðar.
Byggingarnefndin samþykkti á fundi sínum þann 9. mars að farið verði í ástandsskoðun á öllu húsnæði sveitarfélagsins sem hefjist í sumar. Þessi ástandsskoðun verði grundvöllur viðhalds sem farið verður í. Byrjað verður á verkefninu í Njarðvíkurskóla. Þá samþykkti nefndin einnig að farið verði í áframhaldandi framkvæmdir á húsnæði Bjarkarinnar við Njarðvíkurskóla. Byggingarnefndin tók einnig við erindi frá bæjarráði sem vísaði þarfagreiningu vegna leikskólans Garðasels til nefndarinnar. Þá var einnig farið yfir niðurstöður úttektar á húsnæðinu Afreksbraut 10 (íþróttaakademían/fimleikaakademían). Farið hefur verið í viðgerðir á skemmdum í votrými sem er ekki að fullu lokið.