Enn er óvissa hjá Airport Associates vegna framtíðar WOW

Alls fengu 237 starfsmenn Airport Associates (APA) á Keflavíkurflugvelli, stærsta þjónustuaðila WOW air, sent uppsagnarbréf í upphafi vikunnar. „Við hörmum að þurfa að grípa til svo róttækra aðgerða og vonumst til að geta afturkallað þessar uppsagnir svo fljótt sem kostur er, þegar flugáætlun skýrist,“ sagði Sigþór K. Skúlason, forstjóri Airport Associates en mikil óvissa hefur verið með rekstur WOW air flugfélagsins.

Starfsmenn APA fengu þessar upplýsingar á fundi sem yfirstjórn fyrirtækisins hélt sl. föstudag. Á fundinum voru einnig forráðamenn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og Verslunarmannafélags Suðurnesja. Lýstu þeir áhyggjum sínum yfir þessari ákvörðun APA. Sama kvöld og fundur með starfsmönnum var haldinn komu nýjar fréttir um hugsanlega aðkomu erlendra aðila að WOW air.

Sl. föstudag greindi flugfélagið frá uppsögn 15 starfsmanna félagins á Keflavíkurflugvelli.

Sigþór K. Skúlason, forstjóri APA sagði við VF sl. þriðjudag að engar nýjar fréttir hefðu borist af framtíð WOW air og að allir biðu þeirra í þeirri von að þær væru jákvæðar.