Engir gígar í bæjarstæði Grindavíkur
Vandasamt að hleypa vatni á bæinn.
Lögreglustjóri vonar að hægt verði að opna bæinn fyrr eftir næsta gos.
„Það eru engir gígar í bæjarstæði Grindavíkur,“ segir Sigurður Ágústsson, fyrrum lögreglumaður og sveitarstjórnarmaður í Grindavík. Almannavaradeild ríkislögreglustjóra hélt upplýsingafund fyrir íbúa Grindavíkur í Laugardalshöllinni mánudaginn 26. febrúar, þar sem farið var yfir stöðu jarðhræringa og innviða í og við Grindavík.
Þau Freysteinn Sigmundsson frá Háskóla Íslands og Kristín Jónsdóttir frá Veðurstofu Íslands, fóru yfir stöðu jarðhræringanna og sýndu hugsanlegt hraunflæði ef eldgos kemur upp á þeim stöðum sem talið er líklegast að það komi upp. Ari Guðmundsson hjá Verkís fór yfir vinnuna við Varnargarðana og Hallgrímur Örn Arngrímsson sem sömuleiðis vinnur hjá Verkís, fór yfir stöðu og framhaldið á jarðkönnunum. Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri á Skipulags- og umhverfissviði hjá Grindavíkurbæ, fór yfir stöðu innviða í Grindavík. Reynir Sævarsson hjá EFLU fór yfir stöðuna á rafmagni og heitu vatni í Grindavík og lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Úlfar Lúðvíksson, fór yfir hvernig tekist hefur með opnun aftur inn í Grindavíkurbæ og hvernig hann sér framhaldið fyrir sér.
Engir gígar í bæjarstæðinu
Sigurður Ágústsson, fyrrum lögreglumaður og bæjarstjórnarmaður í Grindavík, tjáði sig á fundinum og þar áður hafði hann látið í sér heyra þegar Kristín Jónsdóttir fór yfir stöðu jarðhræringanna. Sigurður sagði henni að aldrei hafi verið eldgos í Grindavík og í spurningum í lokin spurði hann hvernig á því stæði að sumir fræðingar vildu meina að ekki hafi verið kvikugangur undir Grindavík 10. nóvember. Hann bað Freystein og Kristínu um sitt álit á því.
„Ég byggi mína sýn á því að árið 1991 var ég á ráðstefnu Almannavarna ríkisins. Á þessari ráðstefnu kom fram að Grindavík væri í mestri hættu varðandi eldgos. Verkfræðingar á þeim tíma voru búnir að teikna upp varnargarða sem áttu að leiða hraunið til austurs, það hefði verið betra að mínu mati en því verður auðvitað ekki breytt núna. Á þessum fundi kom fram að engir gígar eru í bæjarstæði Grindavíkur en þeir eru allt í kringum okkur. Þess vegna tel ég að það hafi ekki verið hætta á eldgosi 10. nóvember og finnst skrýtið að þessir fræðingar geti ekki komið sér saman um hvort raunveruleg hætta hafi stafað þá eða ekki. Ég yrði ekki hræddur við að flytja til Grindavíkur strax í dag ef það væri í boði,“ sagði Sigurður.
Vandasamt að hleypa vatni á bæinn
Atli Geir Júlíusson er sviðstjóri Skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkur. „Staðan er þannig að við erum búin að hleypa köldu vatni inn á hafnarsvæðið og munum hleypa á íbúðabyggðina í áföngum. Þar sem eldgos liggur í loftinu viljum við bíða og sjá hvar það muni koma upp. Að hleypa vatni aftur á bæinn er vandasamt verk og við erum með pípara með okkur því, þeir eru að kíkja á vatnsgrindurnar. Það eru hugsanlega frostskemmdir einhvers staðar og því þarf að vanda til verka þegar hleypt verður á húsin, ég vona að við getum látið eitthvað frá okkur í lok vikunnar varðandi hvernig því verður háttað. Svo þarf líka að skoða fráveituna, ég held að hún sé löskuð í austurhluta bæjarins en hef á tilfinningunni að hún sé í lagi annars staðar en það á eftir að mynda það. Fólk getur hugsanlega pissað og kúkað í eigin klósett í lok næstu viku en ég vil ekki lofa einu né neinu með það, sjáum hvar næsta eldgos kemur upp og svo tökum við stöðuna. Það varð ekki mikil aflögun í bænum við síðasta gos, vonandi kemur næsta upp talsvert frá bænum og eftir það verður hægt að meta framhaldið,“ sagði Atli Geir.
Nauðsynlegt að koma atvinnulífinu í gang
Úlfar Lúðvíksson er ánægður með hvernig hefur gengið síðan höft voru tekin af 20. febrúar. „Þetta hefur gengið vel myndi ég segja, það eru fáir sem kjósa að fara í bæinn og enn færri sem kjósa að gista. Við mælumst áfram gegn því en það er nauðsynlegt að koma atvinnulífinu af stað, það er mjög jákvætt. Við viljum halda lífi í bænum og erum að gera það, gerð varnargarða hefur gengið vel og þeir veita mikla öryggistilfinningu. Það hefur skapast mikil reynsla í þessum eldgosum að undanförnu, við bíðum eftir sjöunda eldgosinu núna á þremur árum og því fjórða á undanförnum mánuðum. Ef eldgos kemur upp á þægilegum stað ef svo má að orði komast, á ég ekki von á öðru en við getum opnað bæinn fyrr en við gerðum síðast. Við erum að læra á þetta líka og sú reynsla sem hefur skapast til þessa mun koma okkur að góðum notum. Við munum alltaf rýma bæinn þegar við fáum tilkynningu frá Veðurstofunni, sama þótt eldgosið sé ekki nálægt Grindavík því við vitum aldrei hvort það komi upp á öðrum stað nær byggð. Ég á samt von á því að við munum opna fyrr inn í bæinn eftir að atburðinum lýkur,“ sagði Úlfar.
Ekki hægt að stinga hausnum í sandinn
Hörður Guðbrandsson er formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur. Hann hefur verið talsvert í fréttum að undanförnu þar sem hann hefur mótmælt ákvörðun lögreglustjóra með að hleypa fólki aftur inn í Grindavík. Þó er misskilningur í gangi.
„Mín gagnrýni beinist að því að mér finnst menn ekki vera að vinna með það hættuástand sem er t.d. búið að skapast núna. Að mínu mati ætti að rýma bæinn strax því eldgos er yfirvofandi. Hins vegar er það misskilningur að ég vilji alfarið loka bænum. Það á að opna bæinn fyrr eftir eldgos en loka honum svo þess á milli. Eins og þetta hefur verið undanfarið er hægt að hafa bæinn opinn í þrjár vikur en loka honum svo í viku þegar eldgos er við það að bresta á.
Andinn hjá mínum skjólstæðingum er mjög mismunandi, sumir æstir í að komast til vinnu en aðrir sem þora ekki fyrir sitt litla líf að snúa til baka, og allt þar á milli. Þeir sem ekki treysta sér til vinnu geta ennþá nýtt sér framlag ríkisins en svo er að hrúgast inn á sjúkrasjóðinn hjá mér, fólk sem er komið í veikindafrí. Það fólk þarf tíma og úrvinnslu sinna mála en það þarf að vinna með þessu stöðu, það þýðir ekki að stinga hausnum í sandinn,“ sagði Hörður.