Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Enginn sakfelldur fyrir smygl á kíló af amfetamíni
Miðvikudagur 12. október 2011 kl. 16:29

Enginn sakfelldur fyrir smygl á kíló af amfetamíni

Fyrrum ræstingastarfsmaður hjá IGS á Keflavíkurflugvelli var í Héraðsdómi Reykjaness sýknaður af því að hafa reynt að flytja inn rúmlega kíló af amfetamíni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Maðurinn var ákærður fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots með því að hafa tekið á móti pakkningu sem innihélt 1,2 kíló af afmetamíni sem ætlað var til sölu hér á landi í maí árið 2009.

Maðurinn var ákærður fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots, með því að hafa tekið að sér að móttaka pakkningu með samtals 1.263,19 g af amfetamíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi, en fíkniefnin sem voru flutt til Íslands með flugvél Icelandair frá Kaupmannahöfn umrætt ár hafði verið komið fyrir af óþekktum manni í ruslakörfu salernis flugvélarinnar og fundust við leit tollgæslu sama dag.

Ákærði, sem ætlaði að nota sér aðstöðu sína sem starfsmaður Ræstingarþjónustu IGS á Keflavíkurflugvelli þar sem hann vann við hreinsun flugvélarinnar, hafði áður tekið að sér að móttaka fíkniefnin og hugðist sækja þau í ruslakörfuna í flugvélinni og svo afhenda þau óþekktum manni hér á landi án afskipta yfirvalda.

Við fyrstu yfirheyrslur sagðist maðurinn hafa reynt að koma sér undan þessu þegar hann áttaði sig á út í hvað hann væri kominn, en ekki getað það þar sem hann væri búinn að samþykkja þetta og átt erfitt með að svíkja það.

Maðurinn breytti hins vegar framburði sínum fyrir dómi og sagðist hvorki hafa samþykkt né ætlað að taka á móti fíkniefnapakkanum. Hann hafi einungis gert það í desember þegar enginn pakki kom. Hann hafi þá skýrt mönnunum sem stóðu að baki smyglinu að hann ætlaði sér ekki að taka þátt í þessu, en þeir greinilega treyst á að hann myndi gera það.

Maðurinn sagðist hræddur við þá sem stóðu á bak við smyglið. Sagðist hann í upphafi hafa ákveðið að taka brotið á sig, en um leið vonast til að haft yrði upp á mönnunum svo hann þyrfti ekki að benda á þá.
Enn er óupplýst hver það var sem kom fíkniefnunum fyrir á salerni vélarinnar og hverjir það eru sem stóðu að baki innflutningnum. Engin vitni voru leidd fyrir dóminn.

Gegn neitun mannsins þótti Héraðsdómi Reykjaness því rétt að sýkna manninn, jafnvel þótt misræmi hafi verið í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi og verður ekki hjá því komist að sýkna ákærða af kröfum ákæruvalds í máli þessu.